Stökk
Stökk styrkir vöðva og er einfaldlega skemmtilegt fyrir hest og knapa.
Stökk er þrítakta gangtegund með hliðstæðri hreyfingu og svifi og hefur sex hreyfistig.
Gerður er greinamunur á hægra eða vinstra stökki og nauðsynlegt er að þjálfa bæði jafnt.
Stökk er hjá mörgum hestum hraðasta gangtegundin og getur verið gott að hleypa stutta hraða spretti.
Mikilvægt er að gæta þess á hægu stökki að hesturinn stökkvi í góðum þrítakti, vel upp á við og fram, þannig að hreyfingin verði bogadregin, líkast því að hann sé að stökkva upp brekku. Afturfætur skulu grípa inn undir hestinn og spyrna nánast jafnt frá jörðu þannig að hann svífi.
Stökk er riðið meðal annars til að stuðla að jafnri þjálfun vöðva og til að bæta jafnvægi. Það er einnig gott til að losa um spennu í viljugum hestum og getur verið gott til að auka vilja hestsins, ef það er riðið í snörpum sprettum.
Á hægra stökki byrjar hesturinn á vinstri afturfæti, kemur jafnt niður með hægri afturfót og vinstri framfót og endar á hægri framfæti áður en hann fer upp í svif.
Á vinstra stökki byrjar hann stökkið á hægri afturfæti, lendir á vinstri afturfæti og hægri framfæti samtímis og endar á vinstri framfæti og af því er nafnið dregið.
Öfugt stökk, oft kallað krossstökk eða kýrstökk, kemur fyrir ef hestinum fipast og tekur hægra stökk með framfótum en vinstra stökk með afturfótum eða öfugt. Þetta stökk er óþægilegt bæði fyrir knapann og hestinn og ber að leiðrétta.