Tvær beygjur í hverju horni
Hestinum er sýnt hornið með því að beygja hann tvisvar lítillega og rétta svo af á milli með hægri/vinstri ásetu og leiðandi taum.
Ef við ríðum á vinstri hönd tökum við fyrstu beygju við vendipunkt fyrir fyrsta horn skammhliðar. Við setjum okkur í hæfilega vinstri ásetu eins og kennt var í sætisæfingunum í fyrsta áfanga, færum innri hendina inn og aðeins fram til að toga ekki, sitjum síðan bein og færum hendina aftur á sama stað yfir herðum og færum síðan ytri hendina út og réttum hestinn af ríðum beint hálfa hestlengd og endurtökum beygjuna.
Við ríðum hornið en hesturinn fær ekki að ráða hvernig eða hvenær hann beygir.
Hesturinn heldur betra jafnvægi og færir síður of mikinn þunga á innri bóg og lærir því að fara betur í gegnum hornið. Sérstaklega nær hann að vera í betra jafnvægi um hornið ef hann hefur verið stöðvaður nokkrum sinnum við A-B æfingar.
Best er að hesturinn sé ekki viss um hvort við ætlum að stöðva eða beygja og ríða um hornið. Þá lærir hann að bíða eftir ábendingum knapans.
Æfingin gerir okkur leikin í að nota hægri/vinstri ásetu þegar beygt er. Æfingin auðveldar okkur að hafa hestinn í jafnvægi þegar riðið er um horn án þess að nota innri fót sem hesturinn beygir sig um en það lærist í seinni áföngum.
Þessi æfing stuðlar að stöðugleika hests á gangtegund og að hann hoppi síður upp á fótinn.