Almennt um atferli og andlegt ástand hrossa
Andlegt ástand hestsins má lesa að einhverju leyti með því að fylgjast með vissum líkamshlutum hans.
Augun segja mikið um hugarástand hestsins. Þau geta verið stór, skýr og góðleg. Þau geta verið forvitin eða lítil og þrjóskuleg. Þau geta verið óróleg, kvíðin, geta borið svip einbeitingar og jafnvel dugnaðar og vilja. Sjá má að hestur er hræddur ef sést í hvítu augna hans.
Eyrun lýsa greinilega mörgu í fari hestsins. Leggi hann þau aftur og niður (leggur kollhúfur) er hann reiður og jafnvel árásargjarn. Beinist þau fram er hann áhugasamur og jafnvel forvitinn. Leggi hann þau laust aftur beinir hann athygli sinni að knapanum. En séu þau á sífelldri hreyfingu aftur og fram er hesturinn órólegur eða óviss.
Munnurinn gefur ýmislegt til kynna. Hesturinn japlar og freyðir í munnvikum þegar hann er sáttur við mélin og taumhaldið. Hann japlar stöðugt og skellir jafnvel saman tönnum þegar hann er í uppnámi eða í miklum ham. Hann dregur upp munnvikin líkt og hann sé að brosa þegar hann sýnir vanmátt eða undirlægju. Það sést oft hjá folöldum ef þau flæmast frá móður sinni og lenda hjá öðrum hestum. Til að greina lykt nákvæmlega og festa sér í minni lyftir hann upp efri vörinni og lokar fyrir nasirnar (fýlar grön). Þetta sést aðallega hjá stóðhestum um fengitímann.
Hesturinn gefur frá sér hin ýmsu hljóð sem geta lýst hugarástandi hans. Að frýsa í reið er merki þess að hann er í góðu innra jafnvægi og slappar af. Frýsi hestur stutt og snöggt er hann í uppnámi út af einhverju í umhverfinu. Oft gerir hann þetta eftir að hafa fælst eitthvað og þá gjarnan þegar hann hefur stöðvað og snúið sér í áttina að því sem hann fældist. Þetta gerir hann til að hreinsa nasaholurnar svo hann geti betur numið lyktina af því sem olli uppnáminu. Það að snörla (súpa hregg) er merki þess að hestur sé óviss um umhverfi sitt og vilji mæla fjarlægðir með endurkasti hljóðs (sjá þefskyn).
Hnegg hesta má lesa á margan hátt. Hestar hneggja á eitthvað, félaga sína, aðra hesta, jafnvel manninn til að láta í ljós velþóknun eða samstöðu. Eða þeir hneggja eftir einhverju eins og fóðri á gjafatímanum.
Hestar eiga það til að hvía ógnandi ef fara saman angist og reiði eða ýla af sársauka og hryssur kumra gjarnan hlýlega til folalds síns.
Hvernig hestur ber höfuðið segir nokkra sögu. Hann lyftir því til að sjá betur frá sér, fellir það til að sjá betur nær sér eða sveiflar því jafnvel upp og niður. Ef hann hristir höfuðið með hringaðan makka er hann óánægður en ef hann reisir það með hringuðum makka er hann montinn og það fer oft saman með svifmiklum gangi og sperrtu tagli. Graðhestar teygja höfuðið fram og niður á ógnandi hátt þegar þeir reka hryssurnar til.
Hreyfingar fótanna geta sagt okkur ýmislegt um ástand hestsins. Ef hann krafsar stöðugt með öðrum framfætinum í jörðina er hann óþolinmóður. Ef hann stappar honum niður er hann reiður. Hann er að hóta þér ef hann lyftir öðrum afturfætinum þegar þú nálgast hann aftan frá. En ef hann slær stöðugt með öðrum afturfætinum upp í kviðinn á sér og hoppar aðeins á hinum ásamt því að velta sér og hengja haus er það merki um hrossasótt eða iðraverki af öðrum ástæðum. Þá skaltu hringja á dýralækni.
Taglburður segir okkur líka töluvert um hugarástand hesta. Hestur er að hreykja sér þegar hann fer um með uppsperrt taglið og á svifmiklu brokki. Hann er óánægður eða ósáttur þegar hann slær því sitt á hvað, það fer oft saman með kergju. Þegar hestur klemmir taglið að sér er hann kvíðinn. Þegar hesturinn heldur taglinu laust frá sér er hann slakur og oft er hægt að leggja mat á gæði tölttaktsins eftir því hvernig það bylgjast með tölthreyfingunni.