Undirbúningur fyrir slöngulínur

Slöngulínur eru riðnar ýmist í stórum S-beygjum yfir allan völlinn eða litlar einfaldar/tvöfaldar á langhlið eða jafnvel fleiri á miðlínu.

Við notum tunnur, keilur eða jafnvel dekk sem aðhald. Við beygjum hestinn um aðhaldið, notum hægri/vinstri ásetu og langt leiðandi taumsamband til að fá beygju á allan hestinn.

Aðhaldið kemur að nokkru leyti í staðinn fyrir innri fót á meðan við höfum ekki lært að nota hliðarhvetjandi og hamlandi ábendingar.

Árangri er náð ef við finnum með ásetunni að hesturinn gefur eftir innri hliðina, teygir á ytri hliðinni, er í góðu jafnvægi, það slaknar alveg á innri taum en létt samband er á þeim ytri.

Þegar við ríðum slöngulínur skal hesturinn breyta innri hlið í að verða ytri hlið og öfugt bæði hratt og örugglega þegar hann fær framangreindar ábendingar.

Ef hesturinn beygir sig vel til vinstri en ekki til hægri þegar riðnar eru slöngulínur, skal ríða slöngulínu til vinstri en bauga til hægri þar til hesturinn hefur beygt þá hlið líka því það mun vera stífari hliðin hans.

Ef við höfum náð sátt um hraða, gefa þessar reiðleiðir og æfingar okkur skýlausar stefnur og stefnubreytingar og hest sem verður fús að fylgja okkur í þær vegna endurtekninganna.

Einnig léttist hann aðskilið á hægri og vinstri taum og lærir að treysta taumhendinni ef hún færist alltaf á sinn upprunalega stað yfir herðum eftir að árangri er náð.