Þefskyn
Til viðbótar við góða heyrn og sjón hefur hesturinn mjög þróað þefskyn. Nasirnar eru vel lagaðar, víðar eða flenntar og með þunnum nasavængjum.
Hesturinn notar fyrst og fremst sjón til að nema hluti en því næst lyktarskynið til að átta sig betur. Hann þefar af öllu, fóðri, vatni, öðrum hestum og fólki. Þyrstur hestur getur fundið lykt af vatni langa leið. Hann notar lyktarskynið mikið við val á fóðri og lyktarskynið er mjög mikilvægt þegar kemur að samskiptum t.d. milli mera og stóðhesta og milli mera og afkvæma þeirra.
Líklegt er að lyktarskyn hafi einnig skipt hesta miklu máli í árdaga til að nema yfirvofandi hættu snemma svo stóðið gæti tekið á rás.
Hestar hnusa að öllu sem þeir telja að beri að varast eins og djúpu vatni, myrku hesthúsi eða hestakerru og það er ekki alltaf merki um óöryggi heldur varkárni. Þegar þeir hnusa kröftuglega út í loftið við það að sjá eitthvað nýtt, eru þeir að hreinsa nasaholurnar til að geta lyktað enn betur af því sem vakti athygli þeirra.
Ef hestur snörlar áður en hann hættir sér inn í myrkur er hann líklega að meta fjarlægðir ekki síður en að finna lykt. Þá heyra þeir hvenær hljóðið berst þeim til baka og geta metið fjarlægð að fyrirstöðunni út frá því. Það er gáfulegt að gefa hesti tíma til að meta þannig nýjan stað áður en hann er neyddur þangað inn. Óþolinmæði leiðir til neikvæðra viðbragða hestsins og eins víst að hann bregðist illa við næst þegar svipuð staða kemur upp.