Efni 4 stigs / Reiðmennska B

Sniðgangur er æfing sem leysir flest vandamál ef hann er riðinn með hestinn misbeygðan því það má ríða hann á mismunandi vegu.

Meira beygðan í hálsi ef þarf að losa um háls og innri taum, minna beygðan ef við viljum láta innri afturfót kreppa meira færast undir þyngdarpunkt og bera meira.

Sniðgangur getur því bæði verið leysandi og safnandi og þess vegna getur æfingin verið lykillinn að lausninni eða lausnin sjálf.

Við ríðum hestinum aftur á bak sem er safnandi æfing og hún getur breytt jafnvægi af því hún færir þyngdarpunktinn og ekki síst styrkir æfingin forystuhlutverkið og léttir á óæskilegu og of miklu taumsambandi.

Ég tel að við séum orðin það leikin að við þurfum ekki sérstakar ásetuæfingar eins og í fyrsta og öðrum áfanga til að læra nýja ásetu þó það sé alltaf til bóta að gera æfingar og láta yfirfara ásetu sína. Létt áseta íþyngir hestinum minnst ásamt því að auka jafnvægi okkar. Við notum létta ásetu þegar hesturinn þarf að hreyfa sig frjáls eins og þegar honum er hleypt á sprett, farið er yfir ógreiðfært land eða riðið er yfir brokkspírur einnig þegar hleypt er yfir hindranir eða þegar honum er riðið í mjög brattri brekku þar sem alls ekki má fipa hestinn.

Þó við höfum sæmilegt vald á höfði og yfirlínu við auðveldar aðstæður er ekki þar með sagt að við höfum það við allar aðstæður og á öllum hraða.

Hér æfum við frekar að láta hestinn fella höfuð og háls og halda léttleika og sterkri yfirlínu við gangskiptingar og hraðaaukningu. Við æfum að hafa áhrif á það hvernig og hvar hesturinn hefur þungann á framhluta með því að læra að stilla hann sitt á hvað. Þá getum við frekar haft hestinn í góðu jafnvægi og leiðrétt hann ef hann missir það. Riðið hnökralaust um horn eða beygðum á öllum hraða.

Við æfum að auka vilja og einbeitingu, svo hraðaaukningar á tölti gerist fumlaust og snjallt.