Hvernig læra hestar?

Hestar hafa gott minni og læra af endurtekningum. Þeir hafa takmarkaða rökhugsun en allt sem tengist hegðunarmynstri þeirra og flótta-, hóp- og varnareðli festist þeim vel í minni. Sýndu hesti góðan áningarstað með vatni, góðu grasi, skjóli og frið til hvíldar og hann sækir alltaf í átt þangað ef hann á leið hjá. Sama á við um stað sem hann hefur orðið hræddur á. Sá staður veldur óróa hjá honum síðar. Hann man og gerir ráð fyrir endurtekningum á fyrri atburðum.

Hestar hafa ekki sektartilfinningu. Þeir læra af því að hegðun þeirra hefur ýmist góðar eða slæmar afleiðingar, þægilegar eða óþægilegar. Þess vegna skulum við koma fram við hestinn af sanngirni og öryggi svo að hann finni að okkur er annt um hann og höfum skilning á hegðun hans.

Hestar setja hegðun og framkomu knapans í samhengi við ábendingar hans. Samband hests og knapa getur því skipt sköpum um hvernig hesturinn bregst við ábendingum. Að vera bara góður við hestinn getur verið tvíeggjað og færir okkur ekki alltaf það traust sem þarf til að fá að vera í forystu. Hesturinn getur orðið yfirgangssamur. Því er réttast að koma fram við hann af ákveðni og festu, hann þarf bæði hlýju og skýrar reglur.

Margir álíta hesta huglausa vegna áráttu þeirra að víkja eða flýja en það er eingöngu eðli þeirra að víkja undan öllu sem er óþægilegt eða ókunnugt og gæti þar af leiðandi verið hættulegt. Þeir geta þvert á móti sýnt ótrúlegt hugrekki þegar upp koma aðstæður sem þeir þekkja og skilja.

Hestar eru mjög ratvísir. Á Íslandi eru margar sögur til af mönnum sem lent hafa í villu á fjöllum í hríð eða þoku og verið bjargað af hesti sem fékk að ráða förinni heim.

Hestar hafa einnig mjög gott tímaskyn. Þetta kemur í ljós ef hestum er gefið úti á sama tíma alla daga þá má eftir smá tíma stilla klukkuna sína eftir því hvenær þeir mæta til að éta. Þessu tengt má segja að hestum líði vel ef höfð er regla á hlutum eins og fóðrun og umhirðu.

Hestar hafa sínar eigin reglur og það gefur þeim öryggiskennd ef umgengni okkar við þá er regluleg. Þetta má þó ekki yfirfæra á vinnuna með hestinum þannig að hún verði einhæf og leiðinleg. Þar þarf að gæta að nægilegri fjölbreytni til að koma í veg fyrir að hesturinn sljóvgist eða honum leiðist.