Ábendingar


Allt sem við notum til að tjá okkur við hestinn köllum við ábendingar og við skiptum þeim í hamlandi, hvetjandi og samverkandi ábendingar.

Almennt gildir sú regla að nota eigi eins léttar ábendingar og auðið er. Annars er hætta á að næmni hestsins fyrir ábendingum minnki.

Vissulega er hér um að ræða samspil tamningar og næmni hestsins.

Svari hestur ekki ábendingu skal áreitinu aflétt og það síðan tekið upp aftur af meiri ákveðni.

Í samvinnu knapa og hests er mikilvægt að gera sér grein fyrir hlutverkum hvors um sig.

Mikilvægt er að temja hestum að bíða eftir leiðsögn knapans. Hestur á ekki að framkvæma nema hann fái um það skipun.

Hlutverk hestsins er að halda hraða, stefnu og gangtegund.

Hlutverk knapans er að segja hestinum til með ábendingum og endurtaka þær ef nauðsyn krefur.

Knapinn á ekki að sinna hlutverki hestsins svo sem að halda höfuðburði eða róa hestinum áfram.

 

Hvetjandi ábendingar

Eru áreiti sem hesturinn kýs að víkja frá ef hann hefur lært það og er samfærður um að því verði létt af.

Við notum hvetjandi ábendingar til að setja hestinn af stað, auka hraðann eða til að hvetja vissa líkamshluta eins og afturhluta hestsins til hliðar.

 

Hamlandi ábendingar

Eru eins og nafnið bendir til allt það sem hefur hamlandi áhrif á hestinn, róar hann, hægir, heldur jöfnu eða stöðvar.

 

Samverkandi ábendingar

Er það kallað þegar við notum saman hamlandi og hvetjandi ábendingar.

Dæmi um þær er þegar hestur er undirbúinn fyrir tölt. Þá hamlar taumhaldið hraða og mótar höfuðburð en framhvatningin eykur orku og fær hestinn til að beygja liði afturfóta, bera lengur með þeim og fella lend.