Aðrar ábendingar
Hljóðmerki
Hljóðmerki geta verið bæði hvetjandi og hamlandi.
Hvetjandi hljóðmerki gæti verið að smella í góm. Það gerum við mest til að vekja athygli hestsins á okkur og öðrum ábendingum.
Hljóðmerki geta virkað hamlandi þegar við gefum frá okkur róandi hljóð t.d. Hoo þegar við viljum hægja eða stöðva.
Einnig má nota hljóð til að umbuna þar sem hesturinn er látin halda áfram en er látin vita að hann hafi brugðist rétt við eða hafi gert vel.
Pískur
Pískur er hvetjandi þegar gefið er áreiti með honum sem hesturinn víkur undan.
Ef pískurinn er fyrir framan hestinn þegar unnið er við hendi eða hestinum er strokið með honum virkar hann hamlandi og eða til umbunar.
Áseta
Áseta getur bæði virkað hvetjandi og hamlandi á hestinn.
Öll létt áseta virkar hamlandi eða róandi en ef við sitjum lóðrétt og þrýstum mjöðmum fram virkar ásetan hvetjandi.
Með vinstri eða hægri ásetu (snúnings ásetu), er meiri þrýstingur settur á aðra þjóhnútu og læri.
Það virkar hvetjandi þeim megin sem þrýstingurinn kemur og er notað þegar við beygjum hestinn. Þá getur knapinn notað þunga sinn til að hafa áhrif á jafnvægi hestsins og fengið hann til að flytja þunga sinn meira til annarrar hliðar.
Við getum setið virk, þétt og aftarlega og fengið afturfætur til að bera meira og dvelja lengur á jörðu en á lofti þá færist þyngdin af framhluta yfir á afturhluta. Þá er sagt að hesturinn safni sér og jafnvægi hans verður háð jafnvægi knapans.
Líkamstjáning
Líkamstjáning og staðsetning knapans þegar hann teymir hest eða vinnur með hann við hendi er ýmist hamlandi, hvetjandi eða bjóðandi eftir staðsetningu okkar og hegðun.
Hestar bregðast ýmist við af hópeðli sínu eins og þegar við bjóðum honum nær og að fylgja okkur þegar teymt er á eftir, eða af flóttaeðlinu og þá með því að víkja undan því sem er óþægilegt eða ögrandi og í það sem er þægilegt og öruggt. Þar af leiðandi ber ábending aðeins árangur eftir að hún er framkvæmd.
Þegar hesturinn hefur vikið undan ábendingunni og henni verið létt af getur hesturinn horfið inn í það þægilega sem við köllum umbun.
Síðast en ekki síst megum við ekki vanmeta hugarorku okkar og stemmningu sem hestar eru mjög næmir fyrir.