Heyrn

Eyru hests visa fram og aftur samtimis

Hestur getur vísað eyrum samtímis fram og aftur.

Hestar heyra vel. Eyrun liggja ofarlega á höfðinu og eru vel löguð til að safna hljóðbylgjum.

Þau eru mjög hreyfanleg því hesturinn hefur sextán vöðva sem geta hreyft hvort eyra í 180 gráður, óháð hinu. Þannig eiga þeir auðvelt með að nema hljóð úr tveimur mismunandi áttum í einu.
Hreyfanleiki eyrans gerir hestum einnig kleyft að staðsetja hvaðan hljóð koma og einangra það frá öðrum hljóðum.

Það er gott að fylgjast með hreyfingu eyrnanna til að meta hvað hesturinn er að hugsa, að hverju athygli hans beinist. Það er eftirsóknarvert að hestur hreyfi eyrun fram og aftur í reið. Þegar hann vísar öðru eyra fram en hinu aftur gefur það til kynna að hann sé með hugann bæði við umhverfi sitt og hugsi fram en jafnframt er hann einbeittur að knapanum og merkjum hans. Ef bæði eyrun vísa fram er hann meira að hugsa um umhverfið en knapann.

Hestur sem leggur eyrun alveg aftur lokar að mestu fyrir heyrnina.

Hestar geta heyrt mun hærri tóna en menn. Aftur á móti heyra þeir hljóð á lágtíðni verr en menn. Það er afar árangursríkt að nota rödd og hljóðmerki við meðferð hrossa en óþarfi að þau merki séu hávær.
Við þurfum ekki að hrópa til að hestur heyri til okkar og svari skipun. Hestar eru einnig næmir á blæbrigði raddarinnar, við ættum að gefa skipanir af öryggi og forðast hátíðni hljóð sem skapa uppnám. Við þurfum einnig að gefa skipanir á þann hátt að hestur geti skilið á milli þeirra með áherslum og mismunandi raddblæ eftir því hverju við viljum ná fram.

Mikill hávaði og sumir tónar setja flesta hesta í uppnám því þeir þurfa að nema þau öll og aðgreina. Hestar eru því oft órólegri í roki heldur en í logni.

Eyrun segja okkur líka mjög mikið um það hvað hesturinn hugsar og hvernig honum líður ekki síður en augun.