Sjón

auga hests

Augað er ekki bara mikilvægt skynfæri, það gefur líka mikilvægar upplýsingar um líðan hestsins.

Sjónin er mjög mikilvægt skynfæri hesta og það sem þeir nota helst til að skynja hættu. Augun lýsa einnig vel hugarástandi hestsins og segja okkur hvað best hvernig honum líður og hvers er að vænta af honum hverju sinni.

Augu hesta eru staðsett utarlega á höfði þeirra. Hestar hafa því vítt sjónhorn og sjá allt að 360° um sig að undanskildum tveim punktum sem þeir sjá ekki, þ.e. beint fram fyrir sig og beint fyrir aftan sig. Það getur því verið varasamt að koma beint aftan að hesti að óvörum en ef hann fær að hreyfa höfuðið til hliðar getur hann séð allt sem er að gerast í kring um sig.

Þar sem hestar sjá ekki það sama með báðum augum nema það sem er beint fyrir framan þá hafa þeir ekki góða dýptarskynjun, þeir skynja því t.d. ekki dýpt vatns með sjóninni.

Þar sem augasteinn hesta er ekki kringlóttur eins og í mönnum og aðlagast ekki eins auðveldlega þurfa þeir að hreyfa höfuðið upp og niður til að skerpa sjónina og sjá litla kyrrstæða hluti. Það gefur því auga leið að hesturinn treystir þér mjög vel þegar þú mátt móta höfuðburð hans til að auðvelda honum að hafa sterka yfirlínu og skiljanlega ekki alltaf auðvelt.

Hestar sjá mjög vel frá sér en verr það sem er nær. Þeir hafa einnig góða nætursjón en eru smástund að venjast myrkrinu. Nætursjón er eiginleiki sem var lífsnauðsynlegur því á þeim tíma sólarhrings voru rándýr helst á ferli.

Hestar greina hluti sem hreyfast mun betur en menn. Það verður oft til þess að þeim bregður við þegar við eigum ekki von á. Þess vegna eru þeir oft styggari þegar vindasamt er, þá eru hlutir á hreyfingu sem annars eru það ekki og þeir skynja það sem hugsanlega ógnun.

Hestar sjá einnig betur í kyrrstöðu en þegar þeir eru á hreyfingu.

Ekki liggur alveg ljóst fyrir hvaða liti hestar geta séð. Sumir segja einungis svart/hvítt en rannsóknir benda til að þeir geti séð gult og blátt en geri ekki greinarmun á rauðu og grænu.