Baugur og Baugur til baka

Baugur er lítill hringur og ef hann er riðinn í fullri stærð er hann 6-8 metrar í þvermál, hámark 10 metrar.

Hesturinn skal vera beygður eftir ferli hringsins. Ef við finnum að hesturinn vill minnka hringinn og leggur of mikinn þunga á innri hlið eða bóg skal nota sömu aðferð við að venja hann á bauginn í jafnvægi og notuð var við tvær beygjur í horni og riðið á hringnum.

Mikilvægast er að hafa tilfinningu fyrir jafnvægi og bakvirkni hestsins þegar riðinn er baugur.

Hesturinn þarf að beita innri hliðinni rétt og með þessum æfingum reynum við að fyrirbyggja að hesturinn beiti innri hliðinni sem ytri hlið.

Knapinn fær leikni og tilfinningu fyrir því að beygja hest og hjálpa honum að halda jafnvægi. Finnur þegar hann sveigir hálsinn og beygir bolinn rétt.

Knapinn fær þjálfun í að nota hægri/vinstri ásetu og að nota leiðandi taumsamband.

Beygjuáseta, hægri/vinstri áseta

Vinstri áseta er þegar knapinn lætur axlir snúa höfði og höndum í þá átt sem riðið er þannig að axlir eru í stefnu við axlir (bóga) hestsins. Innri taumur verður leiðandi en sá ytri er í léttu sambandi sem nemur aðeins þunga taumsins á þessu stigi.

Ytri fótur knapans er rétt aftan við gjörð og má ekki færast fram. Innri fótur og innanvert læri leggjast létt að síðu hestsins. Þá eiga mjaðmir knapans að vera í stefnu við mjaðmir hestsins og örlítið meiri þrýstingur skal vera á innri þjóhnútu. Það örvar hestinn að beygja bolinn.

Fullkomin verður þessi ábending þegar knapinn fer í seinni áföngum að virkja afturhluta hestsins, lærir að láta hestinn beygja sig um innri fót og að hamla með þeim ytri. Fær hestinn í eftirgjöf og við taum. Þá beitir hann svokölluðum samverkandi ábendingum.

Baugur til baka

Hann er riðin eins og hafður af sömu stærð og baugur nema að við ríðum hann bara hálfan. Þá er hesturinn réttur af og riðið beint á sporaslóð.

Það eru lagðar sömu áherslur þangað til hesturinn er réttur af því baugur til baka er notaður til að snúa við.

Ef við hugsuðum okkur að ríða Baug til baka við E þá byrjum við þegar hnéið á okkur nemur við E. Ríðum inn í bauginn hálfan, ca 6 til 8m inn á völlinn, réttum þá hestinn af og tökum stefnuna á hringpunkt og endum hann þegar innra hnéið okkar nemur við hann.