Riðnar æfingar í öðrum áfanga

Í þessum hluta námsins, er takmarkið að ná sátt um hraða stefnu og fá léttan og sem oftast sjálfberandi hest.

Þetta fer yfirleitt saman, ef það er sátt um hraða og stefnu þá er hesturinn léttur og hægt að bjóða honum að hann beri sjálfur höfuð og háls. Það er ekki farið fram á mótaðan hest sem er við taum.

Flestar æfingar og reiðleiðir miða að þessu marki, það er að fá hestinn til að fylgja okkur í allar stefnur og sættast við hraða sem veitir okkur sameiginlegt jafnvægi. Þetta hefst einungis með endurtekningum ekki ósvipað og ríða endurtekið fyrir kind í smalamennsku og finna hvernig hesturinn fer að fylgja þér án þess að spyrja eða efast.

Sem dæmi þegar við undirbúum að ríða á hringnum með því að beygja átta sinnum og rétta hann átta sinnum af, erum við fyrir utan stefnubreytinguna að létta hestinn átta sinnum af hvorum taum og gefa honum sextán sinnum nýja stefnu á einum hring.