Reiðleiðir í gerði

Til að umferðarreglurnar nýtist verða knaparnir einnig að kunna helstu reiðleiðir á velli. Þegar margir ríða saman á velli geta allir farið um völlinn að vild ef þeir kunna hinar hefðbundnu reiðleiðir og fara eftir umferðareglum.

Reiðvöllur er afmarkað svæði sem er 20x40m að stærð. Innan vallarins eru ákveðnar reiðleiðir notaðar og verður farið yfir þær helstu hér. Mikilvægt er að kynna sér þær reglur sem notaðar eru við vinnu á slíkum velli áður en farið er að nota hann og gera sér grein fyrir tilgangi þess í hverju tilviki. Skipulagslaus reið er til lítils gagns og getur skapað hættu á árekstrum.

Ákveðin merki eru sett inn á gerðið til að marka reiðleiðir. Áður notuðu menn merki í formi hringja og ferninga en nú nota menn bókstafi. Þessi merki eiga að vera á sömu stöðum á gerðinu og skiptir þá litlu hvort er notað.

Talað er um að ríða upp á hægri eða vinstri hönd. Þetta þýðir að sú hönd sem snýr inn á völlinn er sú hönd sem riðið er upp á.

Innri og ytri hlið hestsins eru einnig hugtök sem þarf að þekkja. Innri hliðin er alltaf sú sem beygt er til. Þó riðið sé á hægri hönd getur vinstri hliðin verið innri hlið hestsins ef hann er beygður til vinstri.


Lokaður sniðgangur

Á myndinni er riðinn lokaður sniðgangur. Riðið er uppá vinstri hönd þ.e. vinstri hlið knapans snýr inná völlinn og í þessu tilfelli er vinstri hlið hestsins einnig sú innri en ekki af því hún snýr inná völlinn heldur af því það er hliðin sem hann er beygður til.


Lengri hliðar vallarins eru kallaðar langhliðar en þær skemmri skammhliðar. Á langhliðum eru fjórir vendipunktar (H, K, F og M) og hver þeirra sex metra frá horni. Miðpunktar langhliða (E og B) eru 20 metra frá horni.

Miðpunktar skammhliða (A og C) er 10 metra frá horni. Ímynduð lína milli miðpunkta skammhliða er kölluð miðlína.

Ímynduð lína milli miðpunkta langhliða er kölluð þverlína og línan milli vendipunkta í skástæðum hornum (F-H eða K-M) er kölluð skálína.

Miðpunktur vallarins er á miðjum vellinum þar sem miðlína og þverlína skerast og kallast X.

Hringpunktar eru einnig merktir inn á völlinn og eru þeir notaðir til viðmiðunar þegar riðið er á hringnum. Miðpunktur skammhliðar er einnig hringpunktur hennar.

Á langhliðum eru hringpunktarnir staðsettir 10 metra frá horni.

Ef riðinn er hringur á öðrum helmingi vallarins er hann 20 metrar í þvermál og afmarkast af hringpunktum á þeim helmingi vallarins ásamt miðpunkti vallarins (X). Allur völlurinn rúmar þannig tvo hringi.

20 metra hringur á öðrum helmingi vallarins afmarkast af hringpunktum og miðpunkti vallarins (x)


 20 metra hringir á sitthvorum helmingi vallarins


Leiðin sem riðin er á vellinum er kölluð sporaslóð og er ytri sporaslóð upp við grindurnar en sú innri er u.þ.b. 2,5 metrum innar (nær miðju vallarins).

Ef knapi er staddur á langhlið reiðvallar er næsta horn fyrir framan hann kallað fyrsta horn skammhliðar. Ef hann er á skammhliðinni er annað horn skammhliðar fyrir framan hann og það fyrsta fyrir aftan hann.