Fullsveigja úr hnakknum


Þegar við höfum undirbúið fullsveigjuna við hendi er auðvelt að gera æfinguna úr hnakknum, því þetta er sama æfingin en við aðrar aðstæður.

Þær eru að í stað þess að við stóðum við hliðina á hestinum sitjum við nú á honum.

Við beitum leiðandi taum til að fá sveigju á höfuð og háls.

Þegar sveigjan er komin og innri taumur orðin léttur færum við höndina og tauminn að hálsi og í átt að ytri öxl okkar.

Ytri tauminn gefum við hæfilega eftir til að hesturinn geti fullsveigt hálsinn og færum jafnframt innri tauminn eftir því sem hann styttist úr innri hendi í þá ytri.

Þetta eru sömu handtök eins og ef við viljum stytta í of löngum taum. Við færum annan tauminn og í þessu tilfelli innri tauminn yfir i ytri hendi og tökum við honum með þumal fingri og vísi fingri.

Þegar hesturinn hefur fullsveigt hálsinn og höfuðið er komið sem næst ístaði er allur innri taumurinn kominn í ytri hendi og við höfum innri höndina frjálsa. Með henni getum við þá umbunað hestinum með stroku undir ennistopp sem virkar vel. Hesturinn dvelur í sveigjunni og það léttist á innri taumnum.

Þessi æfing er lykil æfing fyrir svo margt. Hesturinn verður léttur á taumum með sveigjanlegan háls. Höfuð verður óháð afturhluta og það verður hægara að móta höfuðburð.

Knapinn fær æfingu í að stytta snjallt og fumlaust í taumum og sér árangur þegar lyfti taum er beitt sem kynntur verður frekar í næsta áfanga sem er Reiðmennska A.