A-B æfingar (hamlandi og hvetjandi)
Hesturinn stöðvaður með taumhaldi og róandi hljóði og látinn standa kyrr þangað til hann stendur þannig án taumsambands, á slökum taum.
Síðan er hesturinn hvattur af stað með sæti og fótum, hvetjandi hljóði ef þarf en án taumsambands.
Þetta er endurtekið uns hesturinn tekur þessum aðskildu ábendingum vel og stendur kyrr á milli ábendinga og bíður.
Ávallt skal gera þessa æfingu fyrst á feti og í lóðréttri ásetu. Þegar riðið er brokk eða stökk skal riðið í hálfléttri ásetu. Einnig má undirbúa sig og hestinn með því að gera gangskiptingar fet - brokk og láta slakna á taumnum áður og á meðan hestinum er skipt á brokk.
Til að stöðva eru notuð róandi hljóðmerki til að undirbúa hestinn. Síðan er tekið upp taumsamband og haldið við með höndum og öxlum uns hesturinn stöðvar.
Þá eru hendur færðar gætilega fram og upp uns kominn er hæfilegur slaki á tauminn.
Varast skal að halda hestinum í kyrrstöðu á taumnum. Frekar skal endurtaka æfinguna uns hesturinn stendur og bíður með slakan taum.
Gott ráð er að telja upp að þrem eftir að taumur er orðinn slakur áður en hvatt er fram.
Þessi æfing er ekki sú sama og stöðvun þar sem hestinum er riðið inn í stöðvunina með samverkandi ábendingum.
Hér er hesturinn aðeins stöðvaður með taum og hljóðmerki. Þegar hvatt er af stað skal þrýsta fram mjöðmum, leggja lærin að og kálfana fyrir aftan gjörð. Nota skal hljóðmerki eða jafnvel snertingu með písk ef þurfa þykir svo hesturinn bregðist vel við. Hvetja á þennan hátt fram í slakan taum.
Ef hesturinn leitar eftir taumstuðningi eða fer of geyst skal endurtaka stöðvunina því tilgangurinn er að taka ekki upp taumsamband fyrr en stöðvað er.
A-B æfingar eru til að kenna ungum hestum og árétta hjá eldri hestum að svara aðskildum hamlandi og hvetjandi ábendingum
Knapinn lærir að hvetja fram, hamla og stöðva. Hann fær að ráða stefnu og hraða nær vonandi hinu eftirsótta forystuhlutverki.
Hesturinn lærir að hlusta og bíða. Knapinn venur sig og hestinn á að þurfa ekki alltaf taumstuðning.
Stöðugur taumstuðningur er óþægilegur fyrir hestinn og til þess fallinn að draga úr næmni hans. Fyrir knapann er nauðsynlegt að geta riðið án stöðugs taumsambands sem er góður prófsteinn á jafnvægi hans.