Efni 3 stigs / Reiðmennska A

Í verklega þætti áfangans er höfðað meira til þjálfunar hestsins en í tveimur fyrstu áföngum þar sem áhersla var lögð á vinnu og aðfarir knapans. Eftir því sem knapinn öðlast betri ásetu, meira jafnvægi og hefur tök á fleiri ábendingum getur hann haft meiri áhrif á hestinn: mótað hann frekar, riðið fleiri gangtegundir og kennt hestinum nýjar æfingar.

Í bóklega þættinum er ágrip af sögu reiðmennskunnar, þróun reiðmennskunnar fram á 20 öld.

Hugleiðingar um stig þjálfunar, hvernig við forgangsröðum þjálfun.

Skilgreining á vinnu við hendi og kafli um taumsamband. Þá er lýsing á verklegum æfingum.

Áfanginn byrjar á vinnu við hendi sem auðveldar og bætir taumsamband jafnframt sem hún er góður undirbúningur fyrir riðnar æfingar á mismunandi gangtegundum.

Kostir þessarar þjálfunar eru margs konar. Við vinnu við hendi hefur knapinn betri yfirsýn yfir hestinn, viðbrögð hans, svipbrigði og hreyfingar. Hesturinn á auðveldar með að finna og halda góðu jafnvægi þar sem að knapinn raskar því ekki með ásetu sinni og er hann því betur í stakk búinn að svara næmum ábendingum.

Vinna við hendi þar sem knapinn gefur skýrar auðskildar ábendingar skilar því að hestarnir verða áhugasamir, næmir og yfirvegaðir í umgengni. Þeir læra að treysta okkur og virða og knapinn styrkir sitt leiðtogahlutverk.

Í þessum áfanga eru kenndar samverkandi ábendingar. Samverkandi ábendingar er samtvinnun hamlandi og hvetjandi ábendinga.

Hér er einnig kennt hvernig hægt er að hafa áhrif á höfuðburð með taumsambandi og hæfilegri hvatningu. Enn fremur er kennt hvernig skuli móta yfirlínu þ.e. hvort hestur lengist, teygi hálsinn fram og niður eða hann styttist þó yfirlínan sé löng þegar hálsinn er hringaður og reistur.

Þá er kennt hvernig skuli beygja hest við taum, að létta innri taum og fá hestinn til að taka ytra taumsamband, hjálpa honum að vera í jafnvægi þegar beygt er úr vinstri beygju í hægri beygju og öfugt eins og þegar riðin er átta.

Farið er yfir hvernig skuli stöðva þar sem eru gerðar aðrar og meiri kröfur en sú að stoppa sem kennt var í öðrum áfanga.

Knapinn lærir að setja hest á hægra og vinstra stökk ásamt því að hann fær þjálfun í að stíga brokkið og skipta á skástæðum.

Þá er farið í fyrstu æfingar hliðarhvetjandi ábendinga. Við lærum að ríða baug við taum og stækka bauginn en það er undirbúningur fyrir opinn sniðgang.

Undirbúningur fyrir tölt er kenndur og farið er yfir töltreið á auðtöltgengum hesti