Bragðskyn

Bragðskyn hesta er ekki mjög þroskað. Þeir finna bragð af sætu og söltu og þeim líkar það vel og þeir finna bragð af beisku og varast það af fremsta megni. Ástæðan er trúlega sú að eitraðar plöntur sem eru víða til þó þær finnist ekki hér á landi eru jafnan beiskar á bragðið.
Hestar eru varkárir ef nýtt bragð er í fóðurbæti svo sem bætiefni eða meðul. Hestar gera líka greinilega upp á milli fóðurs og því getur tekið nokkurn tíma að venja þá á nýtt fóður. Þeir nota mjög mikið þefskynið með bragðskyninu til að velja sér fóður. Sumir hestar eru greinilega miklir sælkerar og sækja fast í það sem þeim þykir gott.