Undirbúningur fyrir að ríða á hringnum
Við ríðum hálfan völlinn, fyrst ferhyrning síðan átthyrning til undirbúnings fyrir að ríða á hringnum með jafnboginn hest eftir ferli hringsins.
Riðnar eru átta beygjur til að undirbúa reið á hringnum.
Á skammhliðinni ríðum við hestlengd fram hjá A, beygjum á sama hátt og lýst var í tvær beygjur í horni, réttum hestinn af og ríðum beint á F, beygjum þar og réttum hestinn af.
Ríðum eina hestlengd beint fram hjá hringpunkti og beygjum, komum á hálfan völl og beygjum hestlengd fyrir X, réttum af og ríðum hestlengd framhjá X og beygjum, ríðum síðan beint.
Komum á sporaslóð hestlengd fyrir hringpunkt og beygjum, ríðum hestlengd fram hjá hringpunkti eða að K og beygjum að sporaslóð hestlengd fyrir A.
Þegar hestur og knapi hafa orðið tilfinningu og vald á stærð hrings og að ríða eftir merkjum, hesturinn hefur gott jafnvægi og hann minnkar ekki hringinn, sem fæst með því að ríða beint og beygja með jöfnu millibili, má fara að ríða hestinum jafnbeygðum eftir ferli hringsins.
Ástæðan er sú sama og þegar riðnar eru tvær beygjur í horni. Knapinn fær að ráða stefnu og getur hjálpað honum að halda góðu jafnvægi. Hesturinn lærir að treysta knapanum og létta á taumsambandinu.