Efni 2 stigs/Hestamennska B

Í öðrum áfanga er fjallað um skynjun og atferli hestsins. Hvernig hann sér, heyrir, finnur lykt og bragð. Hvernig hann lærir og man. Hesturinn notar undirmeðvitund fremur en rökhugsun. Hann leggur reynslu sína á minnið og bregst við af eðlisávísun eftir því hvort reynslan var góð eða slæm. Til alls þessa þarf að taka tillit í umgengni við hestinn og í reið. Maðurinn þarf að læra að bregðast rétt við hegðun hestsins.

Í þessum áfanga eru gangtegundum hestsins gerð skil. Það er nauðsynlegt fyrir alla hestamenn að geta greint í sundur allar gangtegundir, fótaröð þeirra, takt og hreyfistig. Verkleg kennsla gangtegunda verður þá ekki fyrr en í seinni áföngum.

Allir þurfa að kunna umferðarreglur og reiðleiðir til að geta riðið samtímis og árekstralaust um völlinn. Farið verður yfir umferðarreglur sem gilda á reiðvelli og í almennri reið. Þá verða kenndar helstu reiðleiðir á velli og greint frá öllum merkingum inni á vellinum.

Fjallað verður um þau hugtök sem notuð eru við þjálfun og vinnu við hesta. Ábendingum og sérstökum orðum og orðatiltækjum reiðmennskunnar er lýst og þau skýrð jafnóðum og efnistökin gefa tilefni til.

Í verklega þætti þessa áfanga verður reiðleiðum og umferðarreglum gerð enn frekari skil. Notkun reiðleiða við æfingar gefur allri vinnu með hestinn aukna fjölbreytni, skírar stefnur og styrkir leiðtogahlutverkið.

Þá verða kenndar svokallaðar A – B æfingar þar sem hamlandi og hvetjandi ábendingum er beitt aðskildum. Annars vegar er stöðvað með taumi og róandi hljóði og hins vegar er hvatt fram án taumsambands með fótum, sæti og hljóðmerki. Nemendur eiga þannig að verða hæfari til að gefa hestinum skýrar og einfaldar ábendingar. Nemendur öðlast leikni og tilfinningu fyrir að beygja hest og hjálpa honum til að halda jafnvægi.

Í reið er notuð lóðrétt og hálflétt áseta og þær ábendingar sem nemendur lærðu í fyrsta áfanga. Við æfingarnar er riðið á löngum taum þar sem sambandið við munninn er sem nemur þunga taumsins. Ef hesturinn er látinn brokka er setið í hálfléttri ásetu en í lóðréttri ásetu ef hesturinn kýs tölt og einnig þegar riðið er á feti eða gerðar stöðvunaræfingar.

Hvorki verður farið fram á að nemendur noti samverkandi ábendingar né hafi hest við taum. Í stað þess verður notast við langan taum, og leiðandi taum. Þegar breitt er um stefnu, þar sem ýmist er notuð hægri eða vinstri áseta, eru það axlir knapans sem færa höfuð og hendur til vinstri eða hægri – þannig verður innri taumurinn leiðandi. Knapinn gefur hestinum sömu skilaboð til baks og afturhluta og hann gefur honum í munn og framhluta.

Kennd verður æfingin að fullsveigja (kyssa ístöðin) sem felst í því að fullsveigja höfuð og háls hestsins þetta er auðveld og áhrifarík æfing og er undirbúningur fyrir öryggisæfinguna sveigjustopp. Enn fremur veitir hún nemandanum forsmekk af því hvernig hægt er að móta hest og tilfinningu fyrir því hvernig hesturinn bregst við. Sætisæfingar í öðrum áfanga miðast að því að undirbúa nemandann fyrir stígandi brokkásetu og bæta tilfinningu hans fyrir hreyfingu og takti hestsins.