Sætisæfingar – undirbúningur fyrir stígandi brokkásetu

Fyrsta æfing

Knapinn situr í lóðréttri ásetu á feti, heldur báðum taumum í innri hendi og heldur ytri hendi fram og lætur lófann snúa upp.

Lyftir síðan ytri hendi upp þegar ytri framfótur stígur upp og fram.

Ef litið er niður á ytri bóginn sést vel þegar hann færist fram.

Þetta á að æfa jafnt með báðum höndum.

 Önnur æfing

Knapinn situr í lóðréttri ásetu á feti, heldur jafnt um báða tauma og hefur augun lokuð.

Hann gefur síðan merki með því að segja nú þegar ytri framfótur lyftist og færist fram og síðan þegar innri framfótur færist fram.

Þessi æfing er til þess að knapinn fái tilfinningu fyrir hreyfingum hestsins sitjandi í hnakknum og finni hvenær hvor framfótur færist fram án þess að sjá þá.

Þriðja æfing

Knapinn gerir sömu æfingar þegar innri afturfótur færist fram (er á lofti).

Fyrst á feti svo á brokki í hálfléttri ásetu.

Gert til að knapinn fái tilfinningu fyrir hreyfingum afturfóta með sæti sínu án þess að sjá þá.

Fjórða æfing

Stígandi áseta á brokki. Knapinn stígur upp og fram og lyftir ytri og innri hendi til skiptis.

Knapinn situr í hálfléttri ásetu og setur hestinn á brokk, hefur taumana í innri hendi en heldur ytri hendi frjálsri og lætur lófan snúa upp.

Lyftir svo hendinni upp í hvert skipti sem hesturinn tekur upp ytri framfót og innri afturfót.

Þegar knapinn er orðin leikinn, hefur fengið tilfinningu fyrir hreyfingum hestsins og fundið taktinn, byrjar hann að stíga upp úr hnakknum í takt við það þegar hann lyftir hendinni.

Þá er hann byrjaður að stíga brokkið eins og kallað er.

Fimmta æfing

Stígandi áseta á brokki með hendur á taum.

Ef knapinn lendir á rangri skástæðu (fæti) er rétt að endurtaka fyrri æfingu og reyna síðan aftur.