Taumsamband

Er það samband sem við höfum við munn hestsins. Það getur verið mjög létt og er þá ekki hamlandi.

Langur taumur

Er létt samband við munn hestsins eða einungis sem nemur þunga taumsins.

Langur taumur er notaður þegar við gerum litlar kröfur og hestinum er riðið frjálst með sjálfborið höfuð og í jafnvægi.

Aðeins tekið upp meira samband þegar þarf að stilla hraða í hóf, breyta um stefnu, létta hest niður sem er of hár í höfuðburði eða reisa hest sem er með of lágan höfuðburð og með of mikinn þunga á framhluta.

Slakur taumur

Er notaður þegar taumnum er alveg slakað til að kanna jafnvægi hestsins og til umbunar án þess að hann breytist. Hesturinn á að halda sama hraða, sama vilja, sama höfuðburði og sömu gangtegund eða æfingu.

Taumur gefinn

Þegar við gefum tauminn förum við fram á að hesturinn felli höfuð og teygi á hálsi og baki, bæði fram og niður.

Við taum

Er það kallað þegar hestur gengur fram að taumhaldi sem hann skilur og er sáttur við, færir þunga af framhluta yfir á afturhluta og fellir höfuð í hnakkabeygju.

Leiðandi taumur

Þegar innri hendi færir tauminn inn (út frá hestinum en inn að miðju vallar) til að beygja höfuð og háls eða ytri hendi færir tauminn út (frá hestinum og út frá miðju vallar) til að rétta beygju af eða árétta jafnvægi á framhluta.

Leiðandi taumur er einnig notaður þegar við viljum létta á óæskilegu taumsambandi á öðrum taumnum og fá hestinn til að taka upp samband við hinn gagnstæða taum.

Þegar leiðandi taumur er notaður skal leggja áherslu á að færa höndina beint inn eða út en toga ekki aftur um leið.

Lyfti taumar

Þegar við hækkum báða tauma þannig að sambandið kemur ofar í munnvik.

Þá léttist hesturinn, fellir höfuðið í hnakkabeygju og helst stöðugt í höfuðburði. Ef við léttum innri tauminn á þennan hátt þannig að hann kemur nær herðum og hærra enn sá ytri þá sveigir hesturinn höfuð og háls.

Hið fullkomna taumsamband þegar tömdum hesti er riðið á boginni línu, er að færa báðar hendur örlítið út, hafa innri tauminn örlítið hærri en þann ytri, sem er í leiðandi sambandi, til að mélin haldist jöfn í munni.

Taumhald er jafnan hamlandi ábending sem er notuð til að halda stefnu, halda jöfnum hraða, hægja á eða stöðva.

Aldrei ætti að toga í taum.

Taumhald er það kallað til að árétta að það eru heimar á milli þess að halda og toga.

Hestur sem skilur taumáreiti rétt lagar sig að taumnum.

Hægt er að líkja taumhaldinu við ramma sem mótar höfuðburð og ákveður í hve mikilli söfnun hesturinn gengur.