Vinna við hendi – Fullsveigja (Kyssa ístöðin)

Það er kallað að fullsveigja( kyssa ístöðin) þegar við sveigjum höfuð hestsins og háls svo langt aftur með hlið hans sem auðið er. Fyrst er æfingin gerð við hendi síðan úr hnakk.

Þessi æfing er til að létta innra taumsambandið og gefa svolítinn forsmekk að því hvernig hægt er að laða fram viðbrögð í munni hestsins sem meira er fjallað um í næstu áföngum.

Við þessa æfingu er rétt að nota með leiðandi taumnum svokallaðan lyftitaum svo auðveldar verði að stöðva höfuð og háls af og sættast við sveigjuna. Þetta taumsamband verður notað með leiðandi taumnum í þriðja áfanga til að létta og beygja hestinn.

Það má sveigja hestinn annað hvort að okkur eða frá okkur þegar unnið er við hendi eftir því hvort ber meiri árangur.

Ef sveigja skal höfuð og háls til vinstri, staðsetjum við okkur við bóg og snúum í sömu átt og hann. Við byrjum á að fá samband við bæði munnvik og létta hestinn, fá hann til að losa um kjálka jappla og hneigja sig. Það gerum við með því að leggja ytri tauminn yfir háls fram við eyru og tökum í þann taum niður á við með hægri hendi til að fá samband við hægra munnvik.

Með þumalfingri og vísifingri vinstri handar tökum við um hringi mélanna og færum hann upp til að fá samband við vinstra munnvik. Svo færum við hendur saman þangað til við höfum létt samband við bæði munnvik.

Þegar hesturinn opnar aðeins munninn færum við hendurnar aftur sundur. Þetta er endurtekið nokkrum sinnum þar til hesturinn japlar á mélunum, verður léttur og ber höfuðið sjálfur, meðalreistur.

Þá er höfuðið leitt inn í sveigjuna með innri taumnum en ytri taumur hafður alveg slakur. Ef hesturinn þyngist á tauminn er líklegt að við höfum togað í hann. Þá er rétt að staldra við og taka svo upp þráðinn aftur þar til hesturinn léttist og sveigir höfuðið sjálfur og dvelur þannig fullsveigður sem næst ístöðum eða nær því í fangi okkar.

Til að fá hestinn til að dvelja nokkur augnablik í sveigjunni er rétt að umbuna honum með stroku fjærhandar undir ennistoppinn á meðan sveigjunni er haldið með nærhendinni.

Með nærhendi er átt við höndin sem er nær hestinum en fjærhöndin að sjálfsögðu höndin sem er fjær honum.

Ef hesturinn ver sig fyrir sveigjunni er ráðlegt að strjúka eða jafnvel nudda stífa vöðva á innanverðum hálsinum með nærhendinni. Þegar slaknar á þessum stífu vöðvum gefur hesturinn frekar tauminn og kemur í sveigjuna.

Að láta hest kyssa ístöðin eða að fullsveigja háls á þennan hátt gerir háls og framhluta mjúkan, eftirgefanlegan og óháðan afturhlutanum.
Við fáum oft fyrstu jákvæðu viðbrögð hestsins þar sem hann kemur sjálfviljugur í sveigjuna þegar hesturinn fær snertingu sem umbun.

Í reið lærum við að gera kröfur um að hesturinn beygi líkamann þegar við gefum honum ábendingu um að beygja en breyti ekki bara (beinn) um stefnu. Þá er átt við að hann gefi innri hliðina, dragi saman vöðva á henni en teygi á vöðvum ytri hliðar.