Fet

Fet

Að vinna á feti er mjög mikilvægt fyrir þjálfunina. Í upphafi reiðtúrs eða vinnustundar skyldi alltaf hita upp á feti.

Fet er fjórtakta gangtegund með hliðstæðri hreyfingu án svifs.
Fet hefur átta hreyfistig. Á feti hreyfast fæturnir í þessari röð: Vinstri aftur, vinstri fram, hægri aftur, hægri fram.

Það er mikilvægur grunnur fyrir áframhaldandi þjálfun að kenna hesti gott fet. Hlutverk fets getur verið margs konar eftir því hvernig það er riðið. Það getur verið undirbúningur fyrir tölt og brokk, upphitun í byrjun útreiðar og slökun í lok útreiðartúrs.

Við skiptum fetinu eftir í hvaða tilgangi það er notað:

  • Langt fet þegar hesturinn fær að teygja sig að vild,
  • Meðal fet mest notað til að meta gæði fetsins,
  • Vinnu fet þar sem hesturinn tekur styttri skref og heldur fótum nær þyngdarpunkti er notað við æfingar og til að setja hest betur undir stjórn.
  • Safnað fet þar sem hestur beygir liði verður hærri að framan og fellir lend.

Fet er mikilvægt fyrir bæði andlega og líkamlega uppbyggingu hestsins.

Á góðu meðal feti gengur hesturinn rösklega áfram, er einbeittur og gengur vel inn undir sig. Það þýðir að afturfætur eiga helst að stíga fram yfir framfótarspor sömu hliðar.