Við taum
Hestur er við taum þegar hann gefur eftir á milli fyrsta og annars hálsliðar og verður mjúkur, léttur, heldur neflínu sem næst lóðréttri og hringar hálsinn. Það fyrsta sem við gerum þegar við hefjum útreiðar eða vinnustund á velli er að kanna léttleikan. Ef hesturinn gefur mjúklega eftir þegar við tökum upp taumsamband getum við vísað honum hæfilega niður og hitað hann upp á feti brokki eða stökki við langan eða slakan taum. Þetta gerum við til að ná athygli og varna því að hesturinn byrji ganandi og með óvirkt bak. þá hægjum við niður á fet, vinnu hraða og reisum hestinn. þegar við höfum sátt um hraðann, það finnum við á því að það léttist á taumunum og hraðinn breytist ekki þó við færum hendur aðeins fram sutt í einu má auka orkuna með framhvatningu með sæti og fótum. Það köllum við að sækja hestinn.
Við höldum höndum kyrrum á litlu svæði yfir herðum hestsins og höfum þær vel tengdar við axlir og efri hluta líkamans. Við látum hestinn einbeita sér fram með hæfilegri hvatningu með sæti og fótum. Þegar hesturinn fær þrýsting á munninn gefur hann eftir í hnakka. Þá losnar á þrýstingnum ef hendur eru kyrrar (toga ekki) og hann fær umbun af því að taumsambandið verður mjúkt, létt og þægilegt í þessum höfuðburði. Hesturinn leitast við að víkja frá því sem er óþægilegt og hverfa til þess sem er þægilegt. Það ber að gefa hestinum þann tíma sem hann þarf og þá má umbuna ríkulega fyrir fyrstu skipti sem hann léttist og kemur í hnakkabeygju með því lofa honum að teygja á yfirlínu og lengja fetið. Þá fer það ekki framhjá hestinum að hann hafi brugðist rétt við.
Knapinn hefur fundið sálina í reiðmennskunni þegar hann hefur lært að fá hestinn við taum með hringaðan makka og hefur fundið hinn titrandi léttleika sem er afleiðing umbunarinnar. Nú getum við stjórnað reisingu sem hæfir hverjum hesti og því sem verið er að æfa hverju sinni. Hálsinn virkar eins og jafnvægisstöng og er í beinu sambandi við bak og afturhluta. Hann hjálpar hestinum við að stilla bakið þannig að það verði sterkt og mjúkt. Þá á hann auðvelt með að bera okkur og hreyfa sig fimlega. Forsenda þess að við getum safnað hesti eða vísað honum niður til að hafa stjórn á yfirlínunni er að hann kunni eftirgjöf, sé við taum og líði vel.