Framfótasnúningur
Í þriðja áfanga byrjum við að nota hliðarhvetjandi fót sem liggur aftar en þegar hann er framhvetjandi, um það bil handarbreidd aftan við gjörð.
Að hvetja afturhluta til hliðar þannig að hann snýst um framhlutann er kallað framfótasnúningur.
Ytri fótur knapans er hamlandi og liggur einnig aftar og afmarkar hversu mikið og hratt hesturinn flytur afturhlutann til hliðar og hvernig báðir fætur halda hestinum fram að taumsambandinu.
Þegar við ríðum framfótasnúning til vinstri höfum við hægri ásetu og stillum höfuð og háls til hægri, náum athygli hestsins hægra megin, fáum innri tauminn léttan en sá ytri stjórnar stillingunni, heldur hnakkabeygjunni og sér um að hesturinn gangi ekki fram fyrr en eftir snúninginn.
Hesturinn skal stíga með innri afturfót fram fyrir og yfir ytri afturfót og snúa sér um innri framfót, lyfta honum og setja hann niður aftur nær því í sama spor. Þegar hesturinn hefur snúið sér í hálfhring skal hann hvattur hiklaust fram því hætt er við að hesturinn hætti að einbeita sér nóg fram og færi þunga of mikið á framhluta ef snúningurinn er mikið æfður án nokkurrar tilbreytingar.
Við æfumst í að nota hliðarhvetjandi og hamlandi fóthvatningu sem eru samverkandi ábendingar og undirbúum okkur fyrir hliðargangsæfingar eins og krossgang opinn og lokaðan sniðgang. Hesturinn æfist í að svara ábendingum, verður einbeittur og næmur.