Æfing við hendi – Að létta hest við taum

Við erum að fást við hest sem er þungur á taum og styður sig um of við annan tauminn eða báða. Eða við erum með hest sem ekki hefur lært að skilja eða svara taumsambandi. Þá er rétt að kanna hvernig hann bregst við þegar hann fær taumsamband við hendi og ekkert annað getur truflað.

Við þurfum að kenna honum að bregðast rétt við, að hann léttist og leiti með höfuðið aðeins niður, eins og hann hneigi sig. Þá stöndum við fyrir framan hestinn og leggjum taumana yfir hálsinn. Við reisum háls og höfuð með því að taka undir kjálka og lyfta höfðinu.

Endurtökum þar til hesturinn heldur vel á höfði og framhálsi. Tökum síðan með þumalfingri og vísifingri í hringi mélanna og lyftum þeim upp þannig að þrýstingurinn komi ekki á kjálka og tungu heldur upp í munnvikin. Við bíðum uns hesturinn bregst við með því að hreyfa kjálka og léttir á sambandinu. Mélin leika þá laus í munni, hesturinn japlar á þeim og hneigir höfuðið. Þá stígum við aftur á bak, lútum aðeins fram og bjóðum hestinum að fella höfuð og háls.

Hafa skal upphandleggina þétt að líkamanum og tengja þá við axlir til að hendur séu stöðugar þegar mélunum er lyft og ýti síður eftir að hesturinn hefur reist sig og ber sig sjálfur.

Við lyftur í átt að eyrum, hesturinn má opna kverk og munn sem hann lokar svo aftur og japlar þegar hann gefur eftir og ber sig sjálfur. Við þessa athöfn erum við frekar fyrirferðarmikil .

Ef hesturinn léttir sig ekki þá látum við hann stíga skrefið afturábak og höfum þá tækifæri til að létta á sambandinu. Síðan gerum við okkur lítil með því að lúta fram og stíga skref til baka, bjóðum hestinum að lengja sig niður og fram nokkrar hestlengdir.

Þegar hesturinn bregst vel við, léttist og stígur skrefið aftur, förum við einungis fram á að hann léttist, japli og felli síðan höfuðið í ofurlétt samband þegar við lyftum mélunum. Þá förum við ekki fram á að hann stígi skrefið afturábak. Annars er hætta á að hann stígi bara skrefið afturábak en bregðist ekki við og létti á taumsambandinu.

Takmarkið er að hesturinn skilji að þegar hann losar um kjálka, gefur eftir á milli fyrsta og annars hálsliðar, þá léttist á sambandinu.

Þegar hesturinn er orðin leikinn að létta sig í kyrrstöðu og að láta bjóða sér inn eða fylgir okkur þegar við stígum skrefið aftur,má gera þessa æfingu á ferð. Við tökum hestinn með okkur í skrefinu aftur með mélunum og þrýstingi sem kemur á hnakkann frá höfuðleðrinu.

Þegar hesturinn fer að fylgja okkur sjálfviljugur lyftum við mélum og léttum hann í hnakkabeygju. Þegar við beygjum lyftum við ögn meira hring mélanna þeim megin sem við ætlum að beygja til en höfum samt samband við bæði munnvik.
Ef hesturinn fylgir okkur, léttist í munni, hneigir sig og hringar hálsinn, þá beygir hann sig rétt. Þá þannig að framfætur eru í jafnvægi og innri afturfótur stígur undir þunga hans án þess að hann sé hvattur þangað.
Þetta segir okkur hve mikilvægt gott taumsamband og rétt stilling á höfði og hálsi er fyrir bak hestsins. Einnig fyrir hvar og hvernig hann setur niður fæturna.

Þessi æfing undirbýr hestinn fyrir rétt viðbrögð þegar við erum komin á bak og tökum upp taumsamband. Það þarf natni og nákvæmni til að hesturinn skilji að það er farsælast að vera léttur við taumhaldið og að hann leiti sjálfur eftir léttleikanum. Það gerir hann ef hendur eru næmar og umfram allt stöðugar. Þegar hestur er hæfilega reistur breytir hann jafnvæginu þannig að hann jafnar þunga af framhluta á afturhluta.