Að vísa hesti niður

Að vísa hesti niður. Fá hann til að teygja á baki og hálsi með því að láta hálsinn falla fram og niður. Við gerum það á svipaðan hátt og í æfingunni sem áður er getið en nú á ferð.

Við gefum hesti aukalega eftir tauminn þegar hann gengur í höfuðburði og er léttur í taumsambandi, slakur, einbeittur og rólegur. Þá eru líkur á að hann lengi sig og felli hálsinn niður og fram. Ef hann gerir það ekki nema að litlu leyti tökum við aftur upp taumsamband og endurtökum leikinn. Við látum sambandið koma upp í munnvikin en ekki niður á kjálka eða tungu. Oft er ráðlegt að færa hestinn inn í baug og ef við léttum lítillega innri tauminn þá verður það ytri taumurinn sem vísar hestinum niður en innri taumur verður slakur. Beygjan á bol og hálsi verður til þess að hann teygir sig frekar. Beygjan róar líka hestinn og styrkir jafnvægi.

Að vísa hesti niður er teygjuæfing sem slakar á og teygir vöðva á yfirlínunni, hálsi, baki og lend. Æfingin veitir andlega slökun og er notuð sem umbun og hvíld eftir afköst og eða vinnu í mikilli einbeitingu. Ef hesturinn frísar eftir að hafa teygt vel á sér er það merki um andlega og líkamlega slökun. það er auðveldara að setja hest sem þekkir leiðina niður í réttan höfuðburð þegar hann er síðan reistur hæfilega.