Að hægja og stöðva

Notaðar eru samverkandi ábendingar. Annars vegar hamlandi taumábending til að hægja og stöðva. Hins vegar hvetjandi ábending með ásetu og fótum til að halda hestinum við taum, söfnuðum og í jafnvægi. Þessar ábendingar eiga að vera samverkandi eins og fyrr sagði og mega ekki vinna hvor gegn annarri.

Við hægjum hestinn niður á fet með því að halda meira við hann. Myndum eins og brú frá höndum um axlir, bak, sæti og fætur. Þá virkar taumhaldið ekki bara á höfuð og munn heldur á allan hestinn þannig að hann heldur áfram að bera með afturfótum og létta á framhluta. Við notum hæfilega fóthvatningu og hvetjandi ásetu sem er í samræmi við taumhaldið svo hesturinn haldi léttleika. Þegar hesturinn er kominn á fet höldum við stutta fetinu og leiðréttum jafnframt taumsamband og höfuðburð og stöðvum síðan á sama hátt og við hægðum á.

Hesturinn á að standa léttur við taum, með hnakkabeygju og í jafnvægi. Það er stigsmunur á að stansa eða stoppa eins og kennt var í öðrum áfanga eða að stöðva. Þar ríðum við hestinum inn í stöðvun, það er til að varna því að hann lengi sig og byrji að spyrna með afturfótum, leggi of mikinn þunga á framhlutann og þyngist á taum.