Áttur og slöngulínur

Í þessum áfanga eru gerðar meiri kröfur um jafnan hraða og að hesturinn sé sem oftast við taum heldur en við svipaða æfingu í fyrri áfanga.

Hesturinn er beygður á ferli hrings eða boginnar línu þannig að innri hlið verður mjúk og slök, en ytri hlið teygð.

Við beitum hægri eða vinstri ásetu. Á þann hátt gefum við hestinum sömu skilaboð með höndum og við gefum honum með ásetu og fótum.

Þegar við skiptum um beygju og ásetu, þá verður það sem áður var innri hlið nú ytri hlið.

Slöngulína allan völlinn með þremur bogum er riðin A hringpunktur, hálfur völlur annað hvort E eða B eftir því upp á hvora höndina riðið er, síðan hringpunktur og svo C, allt í jöfnum bogum.

Áttan er riðin á svæði sem er 10x20 metrar. Fyrst er riðið á feti og síðan á tölti eða brokki og við taum.

Hesturinn verður mjúkur og liðugur í hálsi og bol, fær gott jafnvægi og lætur okkur eftir að ákveða hraða og stefnu. Hann verður jafnsterkur og samspora. Hesturinn verður leikinn í að nota báðar hliðar til skiptis sem innri og ytri hlið. Hann æfist í að teygja á vöðvum og taka taumsamband á ytri hlið og draga saman vöðva og láta þá slakna á innri hlið.