Að jafna taumsamband
Þegar hesturinn kemur auðveldlega í hnakkabeygju og er jafnt beygður á báðar hliðar förum við að ríða honum beinum og höfum báða tauma sem ytri taum og í þeirri hæð sem hesturinn á auðveldast með að bregðast við taumsambandi. Ágætt er að miða við að olnbogi, hönd og munnur séu í sem næst beinni línu og höndin sé ekki undir þeirri línu þegar hesturinn er í hnakkabeygju og alveg léttur. Ef hann leitar eftir of miklu taumsambandi við annan tauminn léttum við hann með því að færa þá taumhönd leiðandi inn,en leitast við að ná upp og halda jöfnu taumsambandi við hinn.
Þegar hesturinn er orðinn léttur færum við höndina aftur á sama stað yfir herðum. Þetta gætum við þurft að endurtaka nokkrum sinnum þangað til hesturinn er orðinn jafn.
Merki þess að hestur er orðinn jafn eða léttur og að hann hefur yfirlínu á valdi sínu er þegar við getum vísað honum niður fyrirvaralaust og að hann leiti jafn mikið niður og fram. Ef hann leitar meira fram en ekki niður þegar við lengjum tauminn, leitar jafnvel upp með höfuðið, þá hefur hann ekki skilið taumhaldið og ver sig gegn því.