Forgangsröð (stig þjálfunar)

 • Andleg slökun

  Hesturinn er í andlegu jafnvægi í návist okkar.

  Hann bregst við sanngjörnum ábendingum og snertingu, markvissri líkamstjáningu og hreyfingum knapans án þess að fara í uppnám.
  Þessu náum við með því að umgangast hestinn fumlaust og yfirvegað, gefa honum visst frjálsræði. En þegar við handfjötlum hestinn, mýlum, beislum, leggjum á, tökum upp fætur og kembum skal hafa hann í öruggum höndum eða bundinn.

  Við gerum okkur mikil og hvetjandi til að hesturinn bregðist við sem flóttadýr þegar við rekum hann til eftir þörfum. Til dæmis í aðhald eða úr því, á milli beitarhólfa eða við taumhringsvinnu.

  En þegar við viljum nálgast hann eða lofum honum að nálgast okkur reynum við að sýnast lítil og meinlaus og styrkjum hópdýrseðli hans eins og kostur er.

  Ef allar ábendingar eru þannig að hesturinn skilur þær og fær umbun fyrir að bregðast rétt við þeim fer hesturinn að treysta okkur fyrir forystu og verður andlega slakur.

 • Langt taumsamband

  Í minni persónulegu forgangsröð kæmi hér lágmarks taumsamband eða svokallaður langur taumur. Hann gefur sátt um hraða og stefnu og kemur í veg fyrir gan og fatt bak. Þess á milli er hann slakur og býður hestinum að bera höfuð og háls án stuðnings. Það er nauðsynleg forsenda fyrir því að hestur geti gengið í jöfnum takti og líkamlega slakur.

 • Líkamleg slökun

  Þegar hesturinn er slakur líkamlega á hann létt með að teygja á öllum vöðvum, gera stórar og langar hreyfinga og er í góðu jafnvægi. Hann þarf að vera heilbrigður, óhræddur og andlega slakur.

  Allar æfingar sem lúta að þessu markmiði eru kallaðar slakandi eða leysandi æfingar.

 • Jafnvægi taktur

  Til að hestur finni gott jafnvægi og haldi takti á grunngangi þarf hann að þiggja stefnu, stefnubreytingar og halda sátt um hraða.

  Það er ekki hægt að fara fram á að hesturinn sé á hreinum takti á tölti á þessu stigi þegar hann er ekki kominn í taumsamband eða við taum og undirbúinn að öðru leyti.

  Hér er einungis átt við að hann beri þyngd sína þannig að hann finni jafnvægi og takt á grunngangtegundunum, feti, brokki og stökki.

 • Taumsamband

  Það er sambandið sem við höfum við munn hestsins í gegnum tauminn. Hesturinn skilur og bregst þannig við að knapinn hefur fullkomið vald á hraða og stefnu, fær hann til að beygja sig jafnt á báðar hliðar, mótar höfuðburð og reisingu.

  Gott taumsamband er lykillinn að eftirgjöf og hnakkabeygju, sterkri yfirlínu og virkum afturhluta.

  Það er sjálf sálin í reiðmennskunni.

 • Spyrna og vilji

  Hesturinn hreyfir sig einbeittur og af krafti með fjaðrandi bak. Hann spyrnir sér eða ýtir sér áfram með afturfótum en styður sig eða hjólar áfram með framfótum.

  Spyrna afturfóta er kölluð spyrnu- eða ýtikraftur eftir því hvort hann gengur eða hleypur. Andstæðan er burðarkraftur en það er þegar hesturinn fer að kreppa meira liði afturfóta og færa afturfætur meira í átt að þyngdarpunkti eins og hann gerir þegar hann töltir hægt.

 • Samspora

  Þá er átt við að ríða hestinn beinan. Að hann beiti báðum hliðum jafnt, taki taumsambandinu jafnt og gangi með afturfætur í framfótarspor þó hann sé beygður. Allir hestar beita annarri hliðinni meira en hinni, rétt eins og við erum rétthent eða örvhent.

  Fylið liggur sveigt í móðurkviði og það er ekki nema eðlilegt að þá sé önnur hliðin örlítið teygðari en hin og að hinn ungi hestur beiti henni meira eftir fæðingu.

  Það er svo okkar verk við tamningu og þjálfun að fá hestinn til að beita báðum hliðum jafnt. Það gerum við með því að sitja rétt og í jafnvægi við hestinn, hafa jafnt taumsamband og nota réttar ábendingar til að gera hinar ýmsu æfingar.

  Þessar æfingar gera hestinn liðugan í hálsi og bol, styrkja yfirlínu hans og hjálpa honum við að beita fótum rétt og finna nýtt jafnvægi með okkur á baki.

  Hesturinn er ekki fæddur í þennan heim til að bera okkur á bakinu. Þess vegna þarf hann að finna nýtt jafnvægi þegar við sitjum á honum og það á hinum ýmsu gangtegundum og á mismunandi hraða.

  Til að fá hestinn samspora þarf að láta hann vinna jafnt upp á báðar hendur (hliðar), ekki síst vegna þess að hann er með tvískipt heilahvel og ef hann er búinn að læra eitthvað vinstra megin er ekki þar með sagt að kunni það hægra megin. Það má segja að við séum með tvo hesta, vinstri hestinn og hægri hestinn.

Söfnun

 

Það getur verið gott að styðja við safnandi æfingar við hendi í byrjun.

Við söfnun þurfum við hámarks einbeitingu og vilja sem er ekkert annað en orkumikil framganga undir stjórn.Afturhluti hestsins á að lækka af því hann beygir liðina í afturfótum og færir þá meira undir þyngd sína og beitir meira burðarkrafti en spyrnukrafti. Þetta er kallað að fella lend.

Forsendan er að hesturinn gangi vel fram í taumsambandið, losi um kjálka, létti sig og gefi eftir á milli fyrsta og annars hálsliðar. Felli aðeins höfuðið, hringi makkann og sé svo í léttu og jöfnu taumsambandi.

Þá á hann létt með að draga saman magavöðvana lyfta brjóstkassanum sem gera honum auðveldara að lyfta bakinu, aðallega frambakinu. Við þetta styttist hesturinn allur en yfirlínan lengist, hækkar að framan en lækkar að aftan.

Það gefur auga leið að ekki er hægt að fara fram á söfnun og ná árangri nema að hafa farið í gegnum allt framangreint ferli og hafa vilja við hæfi.

Við getum örvað og aukið við ónógan vilja með hvatningu, réttri stemmningu og sanngjörnum kröfum.

Við þurfum alltaf vilja, bara mismikinn. Við þurfum vilja til að hesturinn gangi nægilega fram að taumsambandinu og komi í réttan höfuðburð.

Við þurfum meiri vilja fyrir söfnun og við þurfum mestan vilja til að ríða yfirferð.

Allar æfingar sem auka söfnun eru kallaðar safnandi æfingar.

 • Yfirferð

 • Á yfirferð sýnir hesturinn hámarks afköst á viðeigandi gangtegund. Til þess þarf hann að vera afar einbeittur og viljugur, vel upphitaður og slakur, búinn að finna takt og jafnvægi, taka taumsambandi vel og jafnt, beita spyrnukraftinum og vera jafnsterkur og samspora.Síðast en ekki síst þarf hann að geta beitt burðarkraftinum til jafns við spyrnuna ef um er að ræða yfirferðartölt og minni burðarkraft og meiri spyrnukraft á flugskeið með sprengikrafti og halda hárnákvæmu jafnvægi. Þetta er sú forgangsröð sem farsælast er að hafa til að ná árangri og afköstum og vera sanngjörn í kröfum okkar. Hún er kölluð stig þjálfunar.

Samantekt um stig þjálfunar

Mikilvægast í þessu sambandi er að við verðum að þjálfa á forsendum hestsins. Tökum sem dæmi tölt og þjálfun þess, og síðan í því samhengi hugtakið söfnun sem er eitt mikilvægasta hugtak skalans. Það er mjög misjafnt hversu auðvelt hesta eiga með að safna sér. En allir eru sammála um að það sé göfugasta markmið manns og hests. Oftast er byrjað snemma á því að safna hesti til tölts og getur það til leitt til spennu og aukins misstyrks ef ekki tekst vel til. Hinsvegar er einnig byrjað að ríða yfirferðagang frekar snemma og oft áður en ofar nefnd atriði í skalanum hafa verið skóluð til hlítar.

Því verður alltaf að ganga línudansa milli þess að skóla hestinn vel og að geta sýnt hann til fullra afkasta fjögurra vetra gamlan eins og gert er á kynbótavellinum. Þá vaknar alltaf upp sú spurning hvort við séum á réttri leið með okkar markmiðum og kröfum. En það þarf að huga að mörgum þáttum eins og vexti og þroska hestsins framfara hans í þjálfun. Og þáttum eins og gróðavon og kynslóðabili í ræktun. Mikilvægast er að hinn almenni reiðmaður læri að byggja sinn hest upp á sanngjarnan hátt. Látist ekki blindast af þeim afburða hestum og knöpum sem sjást í braut kynbótavallanna, komi síðan með ótímabærar kröfur fyrir sinn hest þegar heim er komið.