Æfingar til að létta taumsamband og móta höfuðburð

Þegar við byrjum að hafa áhrif á og móta höfuðburð ber okkur að hafa það í huga að hesturinn þarf að reisa sig og lyfta höfðinu til að sjá vel lengra frá sér. Þessa fjarsjón takmörkum við með því að móta höfuðburðinn og þarf hesturinn að sýna okkur mikið traust til að við fáum að taka við því hlutverki. Við vildum gjarnan lofa honum að hafa þessa yfirsýn en gallinn við það er sá að þá töpum við athygli og einbeitingu hestsins. Í öðru lagi getum við ekki haft áhrif á að bak hans sé þannig stillt að hesturinn eigi auðvelt með að bera okkur og ná afköstum.

 

Hversu oft höfum við ekki upplifað það að hestur er mjúkur og eftirgefanlegur eina stundina. Þú finnur að hann ákveður sjálfur að gefa eftir, hreyfir sig með hringaðan makka og lætur höfuð falla gætilega í hendi þína og þú finnur eins og titring í taumnum þegar hann japlar mélin í hvert sinn sem þú gefur eftir með fingrunum til að umbuna honum. Og þótt þú gefir eftir heldur hann sama höfuðburði, vilja, hraða og gangi. Aðra stundina breytist allt. Hesturinn ver sig gegn öðrum taumnum eða báðum. Hann eins og lækkar og lengist að framan. Viljinn harðnar eða minnkar, hraðinn breytist og gangurinn fer úr jafnvægi. Við ríðum áfram, ergjum okkur svolítið og kennum hestinum um.

En hver var ástæðan? Jú, það gætu verið breyttar aðstæður. Nefna má uppnám í samreið, ekki lengur sátt um hraða og stefnu eða ósanngjarna ábendingu sem hesturinn skildi ekki og gat því ekki svarað. Við höfum misst af augnabliki þar sem hesturinn hætti að taka þátt í leiknum. Afleiðingin verður vörn í beisli sem aflagar höfuðburð og veikir bak og/eða raskar jafnvægi. Oft reynum við að leiðrétta jafnvægið og létta hestinn á taum með auknum hraða. Það heppnast stundum en ekki alltaf. Á sama hátt og jafnvægisleysi getur verið ástæða þess að hesturinn ver sig gagnvart taumhaldi getur vörn gagnvart taumsambandi líka verið orsök þess að hesturinn missir jafnvægið. Sem sagt, vörnin getur bæði verið orsök og afleiðing.

Það koma ekki allir hestar töltandi úr móðurkviði eins og Orri frá Þúfu. Þeir hafa ekki þetta jafnvægi sem felst að nokkru leyti í hlutföllum byggingarinnar og að öðru leyti í því að eiga auðvelt með burð afturfóta, nota meira burðarkraft og dvelja lengi með afturfótinn á jörðu en styttra í lofti. Þegar spyrnukraftur er meiri þá spyrnir afturfótur og er lengur í lofti en á jörðu. Hestar með meiri spyrnukraft hafa öðruvísi byggingarhlutföll. Þeir eru oft eða verða afrekshestar en þurfa lengri tíma og meiri þolinmæði í töltþjálfun. Þeir setja sig oft úr jafnvægi á ferð og leita af þeirri ástæðu eftir óþarflega miklum taumstuðningi. Fyrir vikið er erfitt að slaka þeim á miklum hraða. Það kostar oft mikinn kraft af beggja hálfu og hesturinn setur sig í vörn. Við þjálfun slíks hesta er rétt að aðskilja kraft og hreyfingu og losa um spennu í einstaka líkamshlutum, fyrst munni síðan hálsi, hnakka og framhluta á lítilli ferð, jafnvel í kyrrstöðu eða við hendi.. Þá fær hesturinn tíma til að skilja og svara ábendingum rétt án þess að truflast af því að reyna að halda góðu jafnvægi.

Það er auðvelt að segja eða skrifa um þessa hluti, heyra þá eða lesa en það þarf mikla þolinmæði, nákvæmni tíma og færni til að ná varanlegum árangri. Það þarf næmni og eftirtekt til að missa ekki af augnablikunum þegar hestur hættir að vera léttur og leikandi og fer að verja sig. Þá þarf að staldra við, vera á jöfnum hraða og bíða eftir því að hesturinn skilji, sætti sig við ábendinguna og svari með eftirgjöf sem hægt er umbuna að bragði. Hversu oft höfum við ekki „keyrt yfir“ þetta augnablik og skilið hestinn eftir í uppnámi vegna misskilnings. Ég hef reynt að vanda mig við þetta en það er svo langt frá því að ég hafi verið nógu nákvæmur. Þegar við stöndum uppi með öðruvísi hesta, í byggingu eða skapgerð, bregst okkur oft þolinmæðin. Við leggjum ekki nógu mikla áherslu á nákvæmnina og ímyndum okkur að hesturinn sé að skaprauna okkur af ásettu ráði en það gerir hann ekki og alls ekki ef við gefum honum tíma og aðstæður til að skilja og samþykkja ábendingarnar. Þá fáum við ótrúlega næman hest sem við getum, sökum léttleikans, hjálpað að verða sterkur, í góðu jafnvægi og kraftmikill. Það átakanlegasta í reiðmennskunni er þegar hesturinn bregst við með ósjálfráða taugakerfinu og undirmeðvitund. Þá verða viðbrögð hans svo miklu sneggri og hraðari en okkar. Til að komast hjá endalausum misskilningi skulum við vera róleg og gera lítið. Þá gerum við frekar rétt.