Hugleiðingar um stig þjálfunar

Eftir því sem knapinn fer að hafa meiri áhrif á hestinn með reiðmennsku sinni þarf hann að átta sig á hvernig eigi að forgangsraða atriðum í þjálfun hestsins. Á þetta við um langtímaþjálfun, daglega þjálfun og einstaka uppákomur. Fyrst og fremst að hafa hestinn slakan bæði andlega og líkamlega, í jafnvægi og á viðeigandi takti á hverri gangtegund, taka upp taumsamband sem hæfir verkefninu, hafa hæfilegan vilja og auka fjaður í baki og spyrnu aftur fóta. Það að vera samspora er að hesturinn beiti líkamanum jafnt. Söfnun má líkja við augnablikið áður en að hesturinn sem flóttadýr bregst við aðsteðjandi hættu og við leitumst við að láta hann framlengja þetta augnablik þegar hann kreppir liði í afturfótum og fellir lend, er reistur með hringaðan makka, sterka mjúka yfirlínu, eykur burðarkraft afturfóta, árvakur og til í hvað sem er. Yfirferðin er síðan hámarkið á þessu ferli um stig þjálfunar þegar hesturinn notar bæði spyrnukraft og burðarkraft í þeim hlutföllum sem henta þeirri gangtegund sem hann nær hámarks afköstum á í það skiptið.

Skipulögð stig þjálfunar er mikilvæg í allri þjálfun hrossa og hafa verið lagðir upp margir þjálfunar stigar. Getur það verið mismunandi eftir löndum, hestakynjum og markmiðs þjálfunar. Hér ætla ég að fjalla um þjálfunarstiga Fédération Equestre Internationale (FEI) og þjálfunar stiga Félags tamningarmanna (FT). Hafa menn verið mismunandi skoðunar á uppröðun helstu atriða og einnig er sett mismunandi meining í orðin hvort það er mismunur á áherslum í reiðmennsku eða einfaldlega ekki til sambærileg orð í mismunandi tungumálum.

Öll þjálfun er byggð á grundvelli hugmyndafræðinnar, að þjálfa hestinn á forsendum hans sjálfs, þ.e. byggja upp þjálfunina á skilningi, samvinnu og samspili við hestinn. Nauðsynlegt er að byggja alla hesta rétt upp til að ná betri endingu. Gott er að skilgreina markmið þjálfunar í þjálfunarstigunum, en þau sýna og útskýra á einfaldan hátt hvernig byggja skal upp þjálfun stig af stigi. Og markmið hvers reiðmanns ætti að vera að fá fram glaðan, sterkan og heilbrigðan hest sem gefur af sér þokka og fallega heildarmynd. Algengasta kerfið fyrir hesta er frá Deutsche Reiterliche Vereiningung (FN) og er kallað Skala der Ausbildung. Það kom fyrst fram 1937 í svokallaðri H.Dv.12, sem var regluverk reiðmennsku þýska hersins um seinni heimsstyrjöld, og var sett upp sem sex stiga skali eða tröppukerfi. Endanleg uppröðun atriðanna var sett fram á fimmta áratugnum af Horst Níemack reiðkennara við riddara skólann í Hannover. Hún er eftirfarandi:

 1. Taktur og jafn hraði (Takt/Rythm)
 2. Slökun (relaxation/suppleness /losgelassenheit)
 3. Taumsamband (contact /anlehnung)
 4. Sókn fram, fjaðurmagn (impulsion/schwung)
 5. Samspora (straightness/geraderichtung)
 6. Söfnun (collection /versammlung)

Mikilvægt er að nota slíkt kerfi sem einskonar leiðarvísi og til stuðnings. Því ekki er hægt að aðskilja öll atriðin. Oftast er talað eru um að fyrstu þrjú atriði skalans tilheyri vinnu á ungum hestum. Að þeir læri vinna slakir og finna jafnvægi til að geta gengið á jöfnum hraða, læri að svara taumábendingum án spennu og stífni. Síðan er miðhlutinn sem vinnur að því að auka spyrnukrafts hestsins, og þar eru tekin saman atriði 2-5, þar er lögð áhersla á að byggja á því sem fyrir en reynt að bæta misstyrk og þar með auka svif og fjaðurmagn. Og að lokum er þriðji hlutinn sem stuðlar að bættum burði og eru oftast lögð áhersla á síðustu þrjú atriði skalans.

Til samanburðar hefur íslenski skalinn verið sér hannaður að íslenska hestinum og hans gangtegundum. Einnig er til annar skali þar sem atriðunum er skipt upp í fleiri atriði, en við skulum skoða þennan sem er gefinn út af félagi tamningamanna (FT) sem er meira í líkingu við FN skalann.

 

 1. Slakur. Hesturinn er rólegur, óhræddur, mjúkur og frjáls í hreyfingum
 2. Taumsamband, taktfast jafn hraði. Hesturinn hreyfir sig með jafnri hrynjandi. Létt taumsamband og samhæfni í ábendingum.
 3. Sókn fram(vilji, samvinna). Hesturinn sættir sig við leiðtogahlutverk knapans og sækir áfram viljugur og ánægður hverja þá leið sem knapinn beinir honum.
 4. Hesturinn samspora (stilltur beint). Hesturinn er gerður jafnsterkur með aðstoð hliðargangsæfinga hann verður jafnvígur til beggja handa og getur hreyft sig með jöfnum, hreinum takti á báðar hendur.
 5. Fjaðurmagn, spyrna, við taum. Hesturinn sækir áfram og er mjúkur og laus í hnakka, í stöðugu, mjúku taumsambandi. Hann er í réttri stillingu fyrir viðkomandi gangtegund.
 6. Söfnun. Hesturinn hreyfir sig með frjálsari framhluta, hærri hreyfingum og meira fjaðurmagn vegna aukinnar burðargetu afturfóta.
 7. Yfirferð. Hesturinn er teygður á yfirferðargangi.

Fyrst sést að stigin eru fleiri hjá okkur og er uppröðunin önnur en í FN skalanum. Einnig má sjá stigsmun á einstöku atriðum. Helst ber að nefna að í okkar skala er lögð áhersla á að hesturinn sé í fyrstu slakur bæði andlega og líkamlega. En í FN skalanum er taktur settur sem fyrsta stig. Líklega er það vegna þess að grundvallaratriði í hermennsku en FN skalinn er upprunalega hannaður fyrir riddaraskóla, er að geta riðið í stórum hóp manna og þar er mikilvægt að halda jöfnum hraða og takti. Í erlendum reiðskólum er einnig lögð mikil áhersla á hreinleika gangtegunda. Hérlendis erum við ekki með þennan bakgrunn og einnig er okkar hestur viðkvæmari í jafnvægi og hefur einnig fleiri en þrjár gangtegundir og hann hefur ekki alltaf vald að ná hreinum takti fyrr en að hann er tilbúinn að vinna slakur og óspenntur. Annað stig er sett taumsamband og taktur jafnfætis, en í FN skalanum er slökun í öðru sæti og taumsamband í því þriðja. Hér má bera því við að bæði vegna annars uppeldis þar sem okkar íslenski hestur þarfnast lengri tíma til að venjast manni og ná andlegu og líkamlegu jafnvægi í vinnu. Vegna þess er nokkurrar þjálfunar og viss taumsambands þörf áður en til er ætlast að taktur sé jafn. Síðan er hugtak sem heitir Schwung á þýskumælandi þjóðum, Impulsion er hinsvegar notað í frönsku og hjá ensku mælandi þjóðum. Hér hefur mörgum þýðendum og reiðmönnum vafist tunga um tönn að reyna að þýða þetta hugtak. Hér fyrir neðan er fyrst íslenska skilgreiningin, og þar á eftir þýsk og í lokinn sú franska.

Íslensk túlkun: Fjaðurmagn, spyrna við taum

 • Fjöðrun í hreyfingum þegar hestur spyrnir sér áfram af krafti með stífnilausa yfirlínu.
 • Hestur getur einungis verið fjaðurmagnaður þegar hann stígur vel innundir sig með göfugum skrefum. Léttur við taum og fjaðrandi bak til að viðhalda gegnumflæði.
 • Hraði býr ekki til fjaðurmagn, og hestur sem er að flýta sér verður flatur.

Þýsk túlkun: Schwung

 • Þegar hækilliður í afturfæti færir sig orkumikið fram og upp í skrefinu eftir að fótur sleppir.
 • Losun orku sem geymd er í afturfótum hjá hesti sem fylgir sér og hugsar fram.
 • Er bara til á brokki og stökki.
 • Kemur á undan samspora og söfnun.

Frönsk túlkun: Impulsion

 • Huglægt og líkamlegt ástand hestsins að fylgja ábendingum knapans svo hratt og auðveldlega sem auðið er. Og halda vilja og orku án stöðugrar hvatningar knapans.
 • Það er því víbringur í hestinum ekki hlaupin sjálf.
 • Schwung er oftar gæði gangtegunda og er erfanlegur eiginleiki á meðan impulsion er viðbragð hestsins við hvatningu og er því nátengdur þjálfun.

Notum við af ásettu ráði upprunalegu orðin því við viljum meina að ekki sé hægt að seta samansem merki á milli þeirra. Til gamans má hafa hugfast orðaleik úr ítölsku sem er traduttore, traditore eða sá sem þýðir er svikari.
Útfrá þessum skilgreiningum verðum við að leiða hugann að því hvernig þetta samhæfist okkar hesti og þar af leiðandi þjálfunarskalanum.
Það er ekki svif á feti, því er ekki til schwung á feti. Tölt er einnig gangtegund án svifs og samkvæmt þýska skalanum ætti ekki að vera til Schwung, en ef við skoðum hinsvegar frönsku túlkunina samhæfist hún okkar ganghesti betur. Ekki er talað um svifið sjálft heldur svörun hestsins við hvatningu, sem leiðir til sóknar fram, með orkumikilli spyrnu og sveigju hæklum.
Einungis það að schwung er sett á undan samspora, en hjá okkur skipt í tvennt, annars vegar sókn fram (vilji og svörun ábendinga knapa) og hinsvegar fjaðurmagn sem kemur á eftir samspora, sýnir mismuninn.
Ég vil meina að impulsion í frönsku útgáfunni sé meira hægt að setja samhliða sóknar fram hjá okkur.
Schwung þýsku útgáfunnar er hinsvegar líkara fjaðurmagni, spyrnu, við taum, en verðum þá að líta framhjá kröfu þeirra að það þurfi að vera svif í gangtegundinni.
Við leggjum mikla áherslu á rými og snerpu og er skeið dæmigerð gangtegund þar sem þurfa að fara saman impulsion og schwung. Sú gangtegund sameinar bæði mikla snerpu, vilja hestsins til að sækja fram og mikið framgrip og spyrnu. Þá er ekki hægt að nota orð eins og fjaðurmagn því bakið er stinnara, og verður þá að bæta við einni tröppu í okkar skala sem er yfirferð og þar er líst að hesturinn sé teygður og ekki hægt að tala um gegnumflæði og laus í hnakka.