Fjórðungssnúningur á ferhyrning

Æfingin felst í því að mynda ferhyrning án aðhalds þar sem hliðarnar eru c.a fjórar hestlengdir.

Hesturinn er stöðvaður fyrir ímyndað horn og látinn víkja með afturhluta um framhluta 1/4 úr hring. Ríðum svo fjórar hestlengdir fram áður en við stöðvum hestinn til að endurtaka leikinn.

Við verðum áþreifanlega vör við það þegar við förum að beita hliðarhvatningu hversu mikilvægt er að hesturinn sé orðinn léttur. Annars er hætt við að hann verði of upptekinn af taumsambandinu sem hann er ekki búinn að svara og hlustar þar af leiðandi ekki á hliðarhvetjandi fótinn.

Þess vegna er mikilvægt að stöðva, fá léttan taum, rétta stillingu á höfuð og háls og gott jafnvægi á framhluta áður en hliðar hvatningu er beitt.

Þegar við erum orðin leikin í æfingunni í kyrrstöðu getum við gert hana á feti eða án þess að stöðva. Mikilvægt er að gera æfinguna á báðar hendur. Hesturinn verður leikinn í að gera greinarmun á hliðarhvatningu annars vegar, hreyfa þá einungis aftur hlutann án þess að ýta á tauminn og framhvatningar hins vegar.

Æfingin felur í sér skipulag sem hesturinn lærir að skilja. Hann er stöðvaður og síðan hægður, látinn víkja með afturfætur eftir að hann er orðin léttur og fær síðan að ganga fram og finna gott jafnvægi. Hesturinn tekur því sem umbun.

Við æfumst í að beita ábendingum og virkjum afturfætur hestsins til að stíga undir þyngdina.