Er tölt eðlisgangtegund

Hvað er eðlisgangtegund? Er það eitthvað sem hesturinn kýs að ganga undir sjálfum sér og undir óvönum knapa? Eða má telja það eðlisgangtegund sem þarf að þjálfa og ríða af upplýstum og skóluðum reiðmanni? Við sjáum folöld oft tölta undir sjálfum sér en afar sjaldan fullorðinn hest í rekstri.

Við skulum ekki gera ráð fyrir að allir hestar gangi á hreinu tölti. Sanngjarnt er að gera kröfur til reiðmanna um að þeir læri reiðmennsku til að gera hestinum léttara fyrir að ganga hreint tölt. Gangtegundin tölt er að jafnaði erfið, safnandi hreyfing. Auðvitað eiga hestar misauðvelt með að ganga tölt. Hlutfallagóðum hesti, sem á auðvelt með að lækka lendina og ganga með afturfætur undir þyngd sína, er það léttara en hesti sem ekki hefur þessa eiginleika.

Ég fer aldrei ofan af því að skeiðið er hornsteinn þess að hestur getur gengið óþvingað og rúmt tölt og þá sérstaklega þegar til lengri tíma er litið í hrossaræktinni. Auðvitað koma fram einstaklingar sem geta gengið tölt en hafa ekkert skeið. Og hvað stendur í veginum? Það hlýtur að vera eitthvað í byggingunni sem kemur í veg fyrir að þessir hestar geti teygt sig og flogið svona á skeiði. Er miðhluti of langur eða afturhluti of stuttur? Er þá eitthvað vit í að rækta fram þennan eiginleika? Það má nota hann til að jafna út einhver óæskileg hlutföll en ekki að framrækta hann. Þá föllum við í sömu gryfju og flestir, að ríða bara á brokki. Það skal vera verk ráðunauta í hrossarækt og kynbótadómara að upplýsa um það hvað er fallegur íslenskur hestur? Það getur varla verið fallegur íslenskur hestur sem lítur út eins og arabískur hestur. Íslenskur hestur er fallegur þegar hann geislar af hreysti og krafti og getur flogið á mjúku taktföstu tölti og skeiði auk allra hinna gangtegundanna. Hvernig stendur á því að klárhestur sem ekki uppfyllir þær kröfur að fljúga á skeiði og er hálfpartinn slitinn áfram á aumkunarverðum hliðargangs blendingi, meira á vilja knapans en mætti hestsins, fær hæstu einkunn fyrir byggingu? Hvernig er hægt að ætla íslenska hestinum að vera nægjusömum og nýta það fóður sem í boði er, verja sig fyrir öllum veðrum og halda á sér hita í mestu frostum og jafnframt að vera eins bolléttur og háfættur og arabískur hestur? Við verðum að taka tillit til þess byggingarlags sem hinum fjölhæfa íslenska gæðingi er eiginlegt og forfeður okkar og íslensk náttúra færðu okkur í arf og fara varlega í að gjörbreyta því án grundvallar rannsókna á samspili byggingar og ganghæfileika

En mig langar að segja ykkur hvernig við getum hjálpað hestinum að ganga töltið. Sterkur, óþvingaður, fjaðrandi og í jafnvægi.

Hestur ber þyngd sína nálægt 60% á framhlutanum og þegar við stígum á bak þá eykst þyngdin enn á framhlutanum ef ekkert er að gert. Því er þjálfunin að hluta til fólgin í því að fá hestinn til að jafna þennan burð meira á afturhlutann og það á sérstaklega við um töltið. En til þess að vel takist til þá þurfa vissar forsendur að vera fyrir hendi. Þær eru eftirfarandi þjálfunarstig. Slakur í jafnvægi, við taum, fjaðrandi, viljugur, samspora og safnaður. Allt þetta þarf að vera fyrir hendi og þá fyrst er hægt að fara að ríða tölt með góðum árangri.

Við getum hjálpað hesti okkar best með því að lofa honum að halda góðri og sterkri yfirlínu. Gæta þess að ofreisa hann ekki með röngum höfuðburði eða veikja og fetta bak hans. Það er aðallega tvennt sem getur staðið í vegi fyrir því að hestur geti haldið sterkri yfirlínu. Í fyrsta lagi slæmt og ósanngjarnt taumsamband. Hesturinn nær ekki að finna leiðina frá áreiti taumhaldins, að gefa eftir í hnakka og fá umbun fyrir. Áreitinu er haldið áfram þangað til hesturinn fer að verja sig gegn því og þá hættir hann að nota vöðva sem eru ofan á hálsi og notar í staðinn vöðva sem eru undir hálsi og útkoman verður hjartarháls. Það slaknar líka á hnakkabandinu sem liggur frá hnakka yfir bakið og aftur í lend. Það á að hjálpa bakvöðvunum að vera sterkir og fjaðrandi. Hestar með stuttan og lágt settan háls eru sérstaklega viðkvæmir að þessu leyti. Að hestur sé bara „aðeins“ á móti taumsambandi og verji sig gegn því er ekki ásættanlegt því það dugar til þess að það slaknar á allri yfirlínunni og þar á ofan vinnur hesturinn gegn okkur því hann skilur ekki ábendingar okkar. Ekki má reisa háls og framhluta með höndum og þvingandi ábendingum áður en við fáum burð á afturfætur. Hesturinn á að fella lendina og kreppa liði í afturfótum þannig að reisingin komi jafnt frá afturhluta og taumhaldi um leið og afturfætur nálgast meira að stíga undir þyngdarpunktinn. Og þunga knapans á ekki að nota til að skapa þessa stöðu heldur til að viðhalda henni þegar henni er náð því annars er hætta á að knapinn fetti bakið og veiki. Að þessu fengnu ásamt jöfnu sanngjörnu taumsambandi og góðri hnakkabeygju náum við sterkri yfirlínu og fallegri reisingu sem hæfir hverjum hesti og hjálpar honum að ganga upp í herðar og að ná frjálsum framhluta og fótaburði.

Annað sem getur komið í veg fyrir að hestur tölti auðveldlega er misstyrkurinn eða að vera ekki samspora. Það má líka ætla að misstyrkur sé varnagli frá náttúrunnar hendi svo við villumst ekki alveg ef við töpum áttum. Bæði hestar og menn fara í misstóra hringi eftir því hve misstyrkurinn er mikill þegar áttir tapast. En við það að fara í hring lenda villtir á upphafsreit um síðir og geta þá áttað sig á ný. Þó að við mannfólkið gerum sjaldnast neitt í málinu þá viljum við laga þetta hjá hestunum því missterkir hestar beita stífu hliðinni meira. Ég kýs að kalla hliðarnar stífa og mjúka því satt að segja er ég ekki viss um hvor þeirra er sterkari. Afleiðingin er misjafnt skref. Hestar leita meira eftir óæskilegu taumsambandi á stífu hliðinni. Ef ekkert er að gert getur það gerst þegar við reynum að setja missterkan hest á tölt að hann gengur rétt inn undir sig, kreppir liði en tekur við meiri burði á afturfót mjúku hliðarinnar. Sá fótur kemur undir sameiginlegan þyngdapunkt hests og knapa. En afturfótur stífu hliðarinnar spyrnir bara og kemur þá ekki nógu nálægt þyngdarpunktinum til að taka við burði og úr verður jafnvægislaus skeiðbindingur en ekki sá línudans jafnvægis sem töltið er. Snjallir knapar laga þetta óafvitandi og geta með engu móti gert grein fyrir hvernig þeir fara að. Lykillinn er hið ótrúlega mikilvægi ytri taumsins sem ég gat lengi vel ekki skilið. Hvernig getur ytri taumur leitt innri afturfót á rétta stað? Ég get vel ímyndað mér að sumum finnist það torskilið. En það er í raun einfalt eins og allt í reiðmennskunni. Gefum okkur að við ríðum hesti sem er skeiðlaginn á töltinu og að hægri hlið hans sé sú stífari. Hann ber með vinstri afturfæti en spyrnir meira með þeim hægri. Þá er ráð að reyna að ríða honum beygðum upp á hægri hönd þannig að hann gangi meira yfir á mjúku vinstri hliðina og sé í meira taumsambandi þar. Við fáum hestinn til að beygja sig upp á stífu hægri hliðina og látum slakna á innri hægri taum. Þegar hesturinn gengur eða hleypur svona fer hann að ganga á þremur sporaslóðum. Hægri afturfótur fer að stíga inn og undir þyngdarpunktinn, í sama spor og ytri vinstri framfótur. Hvernig getur ytri taumur leitt hann þangað? Jú, hesturinn setur fótinn þarna af því að hann er beygður. Ekki getum við haldið hestinum beygðum með innri taum því hesturinn ver sig ef hann er þvingaður. Því verður hann að finna leið frá innri taumnum og umbun í formi þess að hann slaknar. Þá er það bara ytri taumurinn sem afmarkar beygjuna, heldur hnakkabeygjunni í horfinu og stjórnar hraðanum. Þar af leiðandi er það ytri taumurinn sem leiðir þennan afturfót í rétt spor. Auðvitað er gert ráð fyrir nægri framgöngu hestsins í formi hvatningar ef hann gengur ekki fram af eigin vilja.

Fimiæfingar þarf ekki endilega að ríða í gerði og þær eru ekki endilega keppnisgreinar. Þær eru frekar aðferð til að gera hesti léttara að hreyfa sig og verða sterkur, fjaðrandi og í jafnvægi. Við þurfum ekki einu sinni að vita nafnið á æfingunum sem notaðar eru. Æfingin sem ég var að lýsa heitir opinn sniðgangur og margir ríða hana með árangri án þess að þekkja heitið.

Með þessu vil ég leggja áherslu á að hestunum er enginn greiði gerður með því að byrjendum og óvönu fólki sé talin trú um að það sé svo auðvelt að ríða tölt. Að ekkert þurfi að læra til að geta riðið töltið með árangri og haldið því svo vel við að hesturinn þurfi ekki að líða fyrir.

Vert er líka að hafa í huga að þegar við byrjum að þjálfa töltið, ekki síst hjá hestum sem eru langstaðnir eða hryssum sem hafa verið í folaldseignum, að þá eru ýmsir vöðvar óþjálfaðir. Nefna má lendar- og magavöðva sem kreppa og beygja afturhluta og lækka lendina. Hestar gera ekki mikið af því að ganga safnaðir og með burð á afturfótum í haganum og til þess að auðvelda þeim lífið er afar mikilvægt að huga að góðri yfirlínu, sterku baki, samspora og jafnsterkum hesti.