Dæmi um að leiðrétta misstyrk

Við göngum út frá því að við séum með hest sem búið er að hita upp á löngum taum. Honum er boðið gott jafnvægi með frjálsum höfuðburði á kjörgangi. Hann þiggur að láta vísa sér niður og teygja á yfirlínu, tekur löng skref, heldur jöfnum hraða og er slakur.

Þegar tekið er upp meira taumsamband, fetið er stytt, orkan aukin og hann er settur við taum kemur í ljós að hann tekur ekki jafnt taumsamband þegar hann er beinn. Hann leitar eftir meira taumsambandi við annan tauminn og þá má ganga út frá því vísu að hann leggur meiri þunga á framfót þeirrar hliðar sem hann leitar eftir meira taumsambandi við.

Við fullvissum okkur um að þessi hestur skilji og samþykki taumsamband í kyrrstöðu, er æfður í að stilla og fullsveigja höfuð og háls til beggja handa, bæði við hendi og með knapa. Þá vitum við að vandinn tengist því að hesturinn er á hreyfingu.

Við byrjum að ríða þessum hesti með jöfnu taumsambandi. Hann gengur að öllum líkindum aðeins sveigður þangað til hann fer að ná sambandi við léttari tauminn. Við látum þá hliðina sem er sveigðari vísa inn á völlinn í fyrstu. Þegar búið er að ríða allan völlinn og bjóða hestinum jafnt taumsamband er rétt að fara inn á hringinn eða 10m baug.

Ég ætla að lýsa hér æfingu sem jafnar þunga á framfótum og taumsamband. Hún er riðin á hringum, í slöngulínum eða á 10m baug.

Ef létti taumurinn og mjúka hliðin, sem hesturinn kýs að beygja sig til, er sú hægri byrjum við að vinna með hann þannig beygðan. Hesturinn á auðveldara með að hreyfa sig þannig af því að þunginn má vera aðeins meiri á ytri framfæti en alls ekki á innri framfæti.

Þá dreifum við athygli hans frá stífari taumnum með því að halda honum uppteknum af léttari taumnum. Ef við ríðum á hringnum eða stórum baug upp á hægri hönd er rétt að undirbúa hestinn á stuttu feti, hæfilega safnaðan og beygðan til hægri.
Leiða hann svo í opinn sniðgang eða stækka aðeins bauginn til að hægri afturfótur færist nær þyngdarpunkti.

Það er aldrei gott að leiðrétta jafnvægi á framfótum ef hesturinn er framþungur. Áður en við skiptum um hönd með því að skipta á hringum á hesturinn að vera orðinn sæmilega upptekinn hægri taumnum sem hann vildi síður taka og nú þurfa skiptin að fara þannig fram að þetta samband við hægri tauminn haldist.

Fyrir skiptingu er þunginn meiri á vinstri framfæti. Hægri afturfótur tekur líka meiri þyngd en sá vinstri af því að hesturinn gengur með hann undir þyngd. Við skiptingu þurfum við að láta þungann færast meira á hægri framfót og fá vinstri afturfót til að færa sig meira undir þyngdarpunktinn.

Eftir skiptinguna viljum við forðast að hesturinn haldi þunga á vinstri framfæti sem verður sá innri og noti vinstri tauminn til að styðja sig við. Þess vegna er mikilvægt að skiptingin fari vel fram og að hesturinn verði með sem jafnastan þunga á framfótum fyrir vinstri beygjuna. Best er að vísa hestinum niður á milli hringa og rétta hann af með leiðandi vinstri taum. Gefa honum síðan slakann og lofa honum að teygja á sér og jafna þungann á framfótum. Síðan gerist margt i senn.

Við tökum aftur upp taumsambandið, reisum hestinn og söfnum honum aðeins. Við beygjum hestinn til vinstri með leiðandi taum höldum sambandi við ytri tauminn bæði til að hesturinn verði ekki of upptekinn af vinstri stífari taumnum og að mélin dragist ekki til í munni. Því næst færum við innri tauminn að hálsinum til að styðja við jafnvægi á framhluta og höfum hana ½ handbreidd hærri en þá ytri sem leitast við að halda jöfnu sambandi. Með því fáum við hæfilega stillingu á höfuð háls og bóga og það léttist á innri taumnum. Það er farsælla að fá framhluta í gott jafnvægi áður en við förum síðan að láta hestinn stíga með innri afturfæti undir þunga sinn. Það gæti verið ráðlegt að flytja þunga okkar örlítið út ásamt innri hliðarhvetjandi fæti og láta miðflóttaaflið létta hestinum hreyfinguna. .

Við gætum þurft að endurtaka þetta nokkrum sinnum áður en við getum riðið hestinum beygðum á baug eða að stækka baug með léttan innri taum.

Í þessu tilviki notum við vinstri ásetu þar sem axlir okkar eru stilltar eins og bógar hestsins. Ytri fótur okkar liggur aðeins aftar en sá innri og það myndast örlítið meiri þrýstingur á innri þjóhnútu og mjaðmir okkar eru stilltar eins og mjaðmir hestsins. Hesturinn á að beygja sig og víkja aðeins út um okkar innri fót. Við höfum lágt og aðeins leiðandi samband við ytri tauminn sem setur þá ramma um hestinn en lyftum þeim innri sem er við háls og herða hestsins. Þegar hann léttir á taumnum og stillir höfuð og háls inn látum við slakna á taumnum yfir eitt skref áður en við áréttum léttleikann og stillinguna. Við endurtökum æfinguna eftir þörfum þangað til hesturinn lætur stjórnast að mestu leyti af ásetu, ytri taumi og innri fæti okkar.

Beygður hestur er í góðu jafnvægi þegar hann ber þungann nákvæmlega jafnt á framfótum, fellir hæfilega lend og innri afturfótur stígur í átt að þyngdarpunkti. Þegar árangur næst skal skipta aftur um hönd og vinna mjúku hliðina til jafns við þá stífu svo stífa hliðin og þá sérstaklega taumsambandið á þeirri hlið verði ekki að þráhyggju.