Að létta hest í reið (stöðvun, eftirgjöf og umbun. Hömlun, eftirgjöf og umbun.)

Við þurfum fyrst og fremst að hafa tilfinningu fyrir því hvað það er að létta hest. Allt of margir knapar hafa ekki kynnst því og finnst það tilheyra að halda meira og minna á hestinum með höndunum. Ástæðan mun vera sú að of margir byrjendur og þá iðulega börn eru látin ríða ónæmum taumþungum hestum. Einnig sá misskilningur að hestar séu annaðhvort stífir eða léttir. En það erum við sem gerum hest stífan. Við gerum hann líka léttan. Önnur ástæða er sú firra að hestur geti ekki verið viljugur nema hann sé taumþungur. Hesturinn á að vera það léttur að það verði aldrei nein fyrirstaða. Ef hún er fyrir hendi þá skilur hann ekki ábendinguna og ver sig fyrir henni. Þá ber að leiðrétta. Það gerir hann best sjálfur ef við gefum honum tíma og forsendur til þess. Forsendurnar eru:

 

  1. Næm, rétt staðsett og stöðug og næm hönd.
  2. Áseta sem tengir hvatningu og þar með afturhluta hestsins við taumsambandið og framhlutann.
  3. Sátt um hraða sameiginleg stefna.
  4. Gott jafnvægi.
  5. Umbun

Taumhaldið á sem oftast að vera þannig að knapinn hafi á tilfinningunni að hann dýfi taumunum í vatn. Það er ekki hægt að setja hest við taum ef hann er ekki léttur og erfitt að fá hest léttan ef hann er ekki í góðu jafnvægi, ber ekki of mikinn þunga á framhluta. Þess vegna byrjum við á því að fá sátt um hraða og létta hestinn. Ekki bara á taum heldur að hann gefi eftir í afturfótum sem er forsenda þess að hann sé ekki með of mikinn þunga á framhluta. Gott er að vera búinn að undirbúa við hendi og gera æfinguna: Að létta hest.

Taumhald, staðsetning handa, hvetjandi áseta og hæfilegur hraði er það sem hafa ber í huga. Best til árangurs er að ríða mjög hægt fet, reisa hestinn hæfilega ef hann er ekki reistur fyrir, staðsetja hendur þannig að þær séu sem næst í beinni línu við munn og olnboga og mélin eiga frekar að koma upp í munnvik en á kjálka og tungu. Þú skalt hvetja hestinn hæfilega fram í stöðugt taumhaldið, hafa hendur í sambandi við axlir og efri hluta líkamans með því að halda upphandleggjum að síðum. Toga ekki heldur halda og tengja saman hvetjandi ábendingar, sem gefnar eru með fótum og sæti, við hinar hamlandi (taumhaldið) með baki þínu og mjöðmum. Þá virkum við á allan hestinn og ekki síst á afturfætur hans þannig að hann gefur eftir, beygir í liðum, styttir skrefið og fellir lend. Við það færir hann þunga af framhluta á afturhluta og léttist á taum. Þegar hesturinn er orðinn alveg léttur lofum við honum að fella höfuðið og framhálsinn með því að færa hendur aðeins fram án þess þó að hann breyti hraða. Þannig léttum við hestinn niður þangað til hann gefur eftir í hnakka, fer að hringa makkann og er alveg léttur. Þá lofum við honum að fella hálsinn jafnmikið niður og hann teygir hann fram, lengja skrefið og lyfta og teygja á bakinu. Þegar hesturinn hefur fengið að teygja sig að vild og jafnvel frýsa, sem er merki þess að hann hefur slappað af má endurtaka leikinn.

Góð æfing til árangurs og til að fá rétta tímasetningu á umbun (slakan taum) er að stöðva hest eftir að hafa riðið tvær eða þrjár hestlengdir, fá eftirgjöf á fyrrgreindan hátt og umbuna svo greinilega. Ríða síðan af stað þegar léttleikinn og hnakkabeygjan er komin við hvatningu með fótum og sæti en léttum taum. Við endurtökum þessa æfingu þangað til við fáum góða tilfinningu fyrir eftirgjöfinni og tímasetjum umbunina þannig að hesturinn breytist ekki þó slakni á taumnum. Eftir það stöðvum við aðeins þegar hesturinn misskilur og ýtir á tauminn í stað þess að gefa eftir. Við breytum þessari æfingu í hömlun, eftirgjöf og umbun án þess að stöðva eftir því sem hesturinn svarar betur og léttist.