Æfing við hendi – Stækka baug

Ytri taumurinn gegnir margþættu hlutverki og okkur hættir oft til að missa ytra taumsambandið þegar við beygjum eða sveigjum hestinn og mélin vilja þá dragast til. Það er því mjög mikilvægt að hafa samband við bæði munnvik, bara örlítið mismunandi samband. Beygður hestur beygir allan bolinn en sveigður hestur sveigir bara höfuð og háls. Þá er ytri hliðin sú sem hann er beygður eða sveigður úr. Hesturinn teygir á henni. Innri hliðin er sú sem hann er beygður eða sveigður í. Ef hesturinn er beinn má segja að báðar hliðar geti verið ytri hlið, þá sú sem snýr út á reiðsvæðinu í það skiptið.

Ytra taumsamband hefur það hlutverk að halda við höfuðburði, ákveða hraða og afmarka hversu mikið hesturinn beygir eða sveigir sig. Hann setur ramma um stellingar hestsins. Innra taumsamband byggist hins vegar á léttleika. Við léttum sambandið með því að lyfta hring mélanna upp í munnvikið og gefum eftir þegar léttleikinn er kominn. Við endurtökum þetta uns léttleikinn helst.

Við þessa æfingu staðsetjum við okkur eins og við æfinguna við að fullsveigja höfuð og háls, setjum hestinn af stað og höfum hann á litlum hring. Við byrjum æfinguna í kyrrstöðu og leggjum taumana yfir háls hestsins. Höfum písk í nærhendi ásamt því að halda með henni um ytri taum, látum pískinn vísa niður. Við færum ytri tauminn fram að eyrum þannig að við fáum samband við ytra munnvik ef við tökum í tauminn niður á við. Við tökum um hring mélanna með þumalfingri og vísifingri handarinnar sem er fjær hestinum og þegar við lyftum honum fáum við samband við innra munnvik. Hesturinn losar um kjálka, japlar á mélunum og léttist þegar við náum sambandi við bæði munnvik á þennan hátt.

Þegar léttleikinn er kominn lofum við hestinum að hneigja höfuðið og koma í hnakkabeygju án þess þó að fella hálsinn. Síðan leiðum við höfuð og háls hestsins í hæfilega sveigju að okkur.

 

Nú færum við tauminn aftar á hálsinn, alla leið að herðum og höfum hann það langan að hægt sé að snerta hestinn með písknum sem er í sömu hendi. Við setjum hestinn af stað þegar hann er orðinn léttur á innri taum og aðeins sveigður. Við snúum að hestinum og leiðum hann fram með fjærhendinni sem heldur um hring mélanna og hvetjum hæfilega með písknum aftarlega á síðu meðan við erum að setja hestinn af stað. Látum hann ganga skref fyrir skref á hæfilega stórum hring til að hann haldi beygjunni. Léttum innra munnvikið með því að lyfta hringnum aðeins. Lofum síðan höfði og hálsi að falla í ytra taumsambandið sem heldur við hnakkabeygjunni, temprar hraðann og afmarkar beygjuna á hestinum því nú má hann beygja sig allur.

Mikilvægt er að hesturinn sé í góðu jafnvægi og beri ekki of mikinn þunga á framhluta eða innri framfæti. Ef hesturinn vindur höfuðið eða hættir að vera léttur og í hnakkabeygju færum við ytri tauminn aftur fram að eyrum og tökum upp jafnt samband við munnvikin uns hesturinn léttir sig aftur og hneigir sig í hnakkabeygju.

Takmarkið er að það sé bein lína fram hálsinn og niður á nefbeinið. Augun eiga að vera í jafnri hæð þegar hestur er kominn í hnakkabeygju. Hann skal ganga fram og undir þunga sinn með innri afturfæti og færa innri framfót fram og yfir ytri framfót. Þegar við erum orðin leikin getum við hvatt ofurlétt með písknum þegar innri afturfótur losar jörð. Þá færist hann fram og inn undir hestinn.

 

Hesturinn lærir að gera mun á innri taum sem er til að létta og beygja og ytri taum sem afmarkar beygju og stillir höfuðburð. Þá hefur hann mélin rétt í munni og verður jafn á tauma ef æfingin er gerð á báðar hendur og ekki síst á teygðari eða stífari hliðina.

Þegar þetta er fengið er auðveldara að gera hestinn samspora, fá eftirgjöf og halda hnakkabeygju. Einnig verður létt að ríða á bognum línum, um horn á hring og að leiða hestinn inn í flestar æfingar.