Ágrip af sögu reiðmennskunnar

Xenophon (450 fyrir Krist)

Það er vitað að hestum var riðið og þeir notaðir í hernaði í Grikklandi fyrir meira en 2.400 árum. Xenophon skrifar fyrstu kennslubók reiðlistarinnar 450 árum fyrir Krist og gefur það glögga mynd af menntun og menningu Grikkja.

Hann lagði höfuð áherslu á óháða ásetu og í þá daga var riðið ístaðslaust.

Xenophon var nemandi Sókratesar og fjallaði þar af leiðandi mikið um hinn sálfræðilega þátt hestamennskunnar. Einkunnarorð hans voru:

Hestur og maður, einn líkami og ein sál.

Hann lagði áherslu á að hestum væri ekki hegnt því þeir hefðu ekki sektarkennd og að þeir væru ekki þvingaðir til hlýðni því þeir hefðu sterka innilokunarkennd.

Xenophon lagði áherslu á hversu viðkvæmur og næmur munnur hestsins væri og að léttur og safnaður hestur væri liprari til snúninga og nýttist þannig betur í orrustum.

Hann lét ekki ríða brokk nema sem milligangtegund upp á stökk.


Miðaldir (1000-1300)

Á miðöldum (1000 – 1300) kom niðursveifla í reiðmennskuna. Farið var að nota stærri og þyngri hesta, háa hnakka og þar af leiðandi áttu hinir brynjuklæddu knapar mjög erfitt um vik að koma að næmum ábendingum.

Þeir notuðu þess í stað langa, beitta spora og löng, vogaraflsmikil stangabeisli.

Í upphafi hverrar orrustu var lensum beitt og burtreiðar voru helsta afþreying aðalsins svo það þurfti aðeins að ríða beint áfram á stórum, stirðum og ekki síst óhræddum hestum.

 

Þessi reiðstíll var kallaður „a la brida“ og honum var beitt í krossferðum Breta til að kristna Mára.

Reiðstíll Máranna á léttum og liprum Aröbum og Berba hestum var mjög frábrugðinn og kallaðist „a la gineta“ sem gæti útlagst: Að vera nettur.

Þeir riðu með stutt í ístöðum og vörðust með boga og örvum.


Federico Grisone

Teikning af Grisone

Næstur á eftir Xenophon til að gefa út kennslubók í reiðmennsku og 2000 árum seinna (1532) varð hin ítalski Federico Grisone sem var stofnandi Neapolitanischen Reitakademien. Bókin heitir Gli ordini di cavalcare eða "The Rules of Riding". Í henni er fjallað um umgengni og hirðingu, beislabúnað, tamningu og þjálfun.

Grisone fann upp nýjar æfinga og varð fyrstur til að gefa þeim nafn.

Dæmi um það eru Volte (baugur).

Hann lýsti nánar ábendingum og lagði grunn að fagmáli reiðmennskunnar.

Grunnhugmynd skóla Grisone var að þjálfa hesta fyrir stríð og gera æfingar til að verjast fótgönguliðum.

Gott dæmi um það er Kapriole þar sem hesturinn er látinn lyfta framfótum frá jörðu og síga á afturfæturna, stökkva svo fram og spyrna afturfótunum aftur undan sér. Þannig bættist stórhættulegt vopn í vopnabúrið.

 

Capriole

Grisone byggði kennsluna að miklu leyti á hugmyndum Xenophon og þróaði þær meðal annars með því að innleiða ístöð.

Þau breyttu ásetunni í hinum háa og mikið fóðraða hnakk þannig að hún varð mjög bein, nánast standandi.

Hann fór samt fram á að knapinn fylgdi hreyfingum hestsins til að trufla hann ekki.

Grisone lagði meiri áherslu á brokkreið og þá til að styrkja afturhluta og fá hestinn til að beygja meira hækla og fá þar með meiri söfnun en hún var þá að komast í tísku.

Því miður misskildi hann eðli hestsins og brást við vörn og misskilningi með því að beygja hestinn undir vald og hegna honum. Hann gekk út frá því að það að hegna hesti væri jákvæð tamningaaðferð og því hræddari sem hesturinn væri við knapann því betur hlýddi hann.


Löhneysen (1625-1729)

Della Cavalleria

Þessi harði ítalski skóli Grisone hafði áhrif í Þýskalandi á árunum 1625-1729 vegna bókaskrifa hins þýska reiðmeistara Löhneysen, sem skrifaði umfangsmikil verk um reiðmennsku þess tíma.

Hann tjáði sig til dæmis um fleiri hundruð beislismél, aðallega ýmsar útgáfur af stangamélum, í bók sem heitir Della Cavalleria.

Hann mælti með því að hestar væru ekki tamdir fyrr en fimm vetra gamlir af því að þeir væru ekki með nógu þroskaðan afturhluta fyrir hina miklu söfnun sem þá tíðkaðist.

Þó Löhneysen væri talsmaður kenningar Grisone um að hesturinn ætti að vera hræddur við knapann viðurkenndi hann þó að umbun í einhverju mæli væri mikilvægari en hegning.

Hann staðsetti hinn hamlandi ytri fót knapans til að halda afturhluta hestsins undir þunga knapans, mælti með fattri ásetu og léttri hönd sem var meira en nauðsyn með mikilli notkun á kraftmiklum stangamélum.


16. og 17. öld / Pignatelli - Broue - Pluvinel

Pignatelli nemandi Grisone mildaði aðferðir kennara síns.

Hann skrifaði um tvo mikla reiðmeistara á 16. og 17. öld, Salomon de la Broue (1553-1610) og Pluvinel (1601-1643).

Lítið sem ekkert er hér fjallað um Salomon vegna grófrar reiðmennsku og miskunnarlausrar kröfu um undirgefni hestsins.

Pluvinel (1601 - 1643)

Mikilvægari og nútímalegri en aðferðir Salomons de la Broue, þótti reiðmennska Pluvinel sem lagði áherslu á að hesturinn ætti að hafa ánægju af vinnunni og að árangur næðist ekki með því að þvinga hann.

Capriole (efri mynd) og piaffe milli staura eða "Pilars" (neðri mynd)

Pluvinel hafði þó hlýðni í fyrirrúmi og tók fyrstur tillit til vandamála sem upp komu vegna mismunandi geðslags, næmni, uppnáms og vilja við tamningu.

Hann lagði mikla áherslu á umbun en ef og þegar þörf væri á hirtingu ætti hún að koma strax í kjölfar óhlýðni. Öðruvísi gagnaðist hún ekki.

Pluvinel tók beina, nær fatta ásetu fram yfir aðrar tískuásetur og afskrifaði alveg þriggja punkta sæti eða hálflétta ásetu.

Hann er talinn hafa fundið upp Pilaren en það eru tveir samhliða staurar sem hesturinn er látinn hreyfa sig á milli til að auka söfnun.

Hann sá allar erfiðar æfingar fyrir sér sem náttúrulegar eða að hesturinn ætti að gera þær frjáls úti í náttúrunni.


William Cavendish, Hertoginn af Newcastle

William Cavendish, hertoginn af Newcastle

Á sama tíma þróaðist í Englandi reiðskóli hertogans af Newcastle sem fann upp æfinguna höfuð inn í bauginn. Þá æfingu má líta á sem undirbúning og upphaf opins sniðgangs.

Hertoginn er líka höfundur rennitaums og taumhringmúls (kappzaum).

Hann afskrifaði Pilar vinnu Pluvinel og lagði áherslu á aðra ásetu. Í stað þess að sitja fattur í baki lagði hertoginn áherslu á hreyfanlegar mjaðmir og að færa þyngdarpunkt aftar til að virkja afturhluta til söfnunar.

Til að ná árangri taldi hann mikilvægt að vinna hálsinn vel hringaðan en brenndi sig þó á því að ofnota rennitaum og við það urðu allir hestar hans ofhringaðir og undir taum.

Hann taldi mikilvægt að ríða á innri taum en nútíma reiðmennska mælir gegn því.

Þó svo hertoginn færi þarna villur vega ætlaðist hann samt til að við söfnun ætti hesturinn að ganga með þrönga afturfótastöðu og færa innri afturfót nær þyngdarpunkti þegar hann gengi beygður.


Francois Robichon  de La Guériniére (1688-1751)

Árið 1773 kom út verkið Ecole de Cavalerie eftir Francois Robinchon del la Guériniére sem enn þann dag í dag er viðurkennt og í hávegum haft.

Guériniére mótaði reiðlist sem ekki voru settar neinar skorður af hernaði og byggðist á hreyfingafræði, eðli og atferli hestsins þar sem tekið var tillit til mismunandi hestgerða.

Með ástundun og á faglegan hátt vildi hann vinna hesta liðuga, hlýðna og í andlegu jafnvægi. Hann fann upp fljúgandi stökkskipti og ytra stökk, líka æfingarnar Piaff og Passage og gaf þeim nafn. Piaff er brokk á staðnum og Passage er örhægt safnað brokk með háum fjaðrandi hreyfingum.

Hann þróaði frá hertoganum af Newcastle höfuð inn í baug þar sem höfuð og háls eru stillt inn þegar riðinn er baugur, með því að láta ríða æfinguna á beinni línu eða jafn mikið fram sem út á hlið.

Þessi æfing er gjarnan kölluð konungsæfing reiðlistarinnar vegna fjölhæfni og er hinn þekkti opni sniðgangur. Hún léttir og gerir hesta sveigjanlega í hálsi og framhluta og svo er hún safnandi af því að hún gerir afturfætur og hækla virka.

Guériniére vildi láta ríða afturfótasnúning á stökki (Pirouette) þannig að hesturinn héldi stökkinu með afturfótunum en stæði ekki í þá og snéri þeim eins og áður var gert.

Áhugavert er að hann tók fjórtakta stökk fram yfir þrítakta stökk og notaði mikið það sem hann kallaði Redopp sem er hreint valhopp. Á vinnuhraða virkar valhopp slakandi, færir þyngdina aftur og framhluti verður léttur.

Hann breytti hnökkunum, lækkaði þá og gerði þá flatari.

Sem forgangsröð í þjálfun ráðlagði hann þessa röð:

  • Slökun,
  • Eftirgjöf
  • Hlýðni
  • Söfnun.

Hún stenst í aðalatriðum stig þjálfunar í dag.

Guériniére tók aftur að nota hringamél við frumtamningu og grunnvinnu í anda Xenophon. Hann taldi að hesturinn ætti að laga sig að hönd knapans og léttleiki ætti að koma á undan krefjandi fóthvatningu.

Hann leiðrétti taumsamband hertogans af Newcastle og taldi að ef innri taumur væri ekki léttur kostaði það spennu og jafnvægi á framhluta.

Hann lagði áherslu á mikilvægi ytri taums við söfnun og í beygjuvinnu.

Það sem Guériniére skrifaði og kenndi er enn grunnur að nútíma reiðmennsku og er skyldulesning í virtum reiðskólum nútímans svo sem spánska reiðskólanum í Vín.


19. öldin

Á 19. öld kom bakslag í reiðmennskuna vegna einhliða þjálfunar hesta til hernaðar og sums staðar í Evrópu misstu menn sjónar af grundvallar gildum reiðlistarinnar.

Berst Maxime lét hraðtemja hesta á vígvöllinn og notaði mikið hjálpartæki eins og "spánska knapann" í stað lifandi knapa til að fá reisingu og lágmarksjafnvægi.

Hann fann upp þýska reiðmúlinn og orðatiltækið hestaleikfimi. Umhugsunarvert er að hann taldi fætur knapans vera sál reiðmennskunnar. Það var síðar styrkt með aðalsetningu Steinbrechts: „Ríddu hestinum þínum fram og hafðu hann beinan (samspora)“.


Francois Baucher (1796-1839)

Í upphafi 19. aldar lifði í Frakklandi snillingur sem hét Francois Baucher (1796-1839). Hann var bæði misskilinn og mistúlkaður.Vegna næmni sinnar og tilfinningar fyrir léttleika þróaði hann æfingar eins og fljúgandi stökkskiptingu í hverju skrefi og stökk aftur á bak. En hafa ber í huga að hann var sirkusreiðmaður.

Baucher er upphafsmaður að vinnu við hendi og hann undirbjó hasta sína þannig að þeir skildu og gátu brugðist hratt og vel við ábendingum þegar komið var á bak.

Hann lagði áherslu á að hestar losuðu um kjálka og jöpluðu á mélum áður en þeir kæmu í hnakkabeygju. Hann taldi að aðeins með léttan hest væri hægt að losa um alla spennu og láta hann finna gott jafnvægi, að munnurinn og taumsambandið væru lykillinn að virkum afturhluta.

Þessi forgangsröð áherslna samræmist ekki alveg stigum þjálfunar eins og þau eru sett fram í dag.

Hvoru á þá að breyta?

Sannarlega eru æfingar og undirbúningur við hendi svo og áherslur hans á munninn og taumsambandið nútímalegar og viðurkenndar í dag. Þær koma í veg fyrir spennu og stífni og minnka vandamál sem tengjast baki og hryggsúlu.

Baucher skrifaði bækur en tókst ekki nógu vel að túlka næmni sína og snilld. Því var hann talinn vélrænn öfuguggi reiðmennskunnar af sumum samtíma reiðmeisturum, mest fyrir misskilning, vanmátt eða jafnvel öfund.

Þekkt er þessi setning Baucher:

„Fætur án handa og hendur án fóta“.


James Fillis (1834 - 1913)

James Fillis (1834-1913) gagnrýndi vinnu og aðferðir Baucher á þeim forsendum að þær stæðu í vegi fyrir nauðsynlegu fjaðri, svifi og spennu sem hann taldi sig ná með látlausri framreið.

Eins og Baucher innleiddi hann nýjar gangafbögur eins og stökk á þremur fótum. Hann lagði mikla áherslu á víðavangshlaup og hindrunarstökk. Einnig á reisingu á öllum gangtegundum og hraða.

Hnakki hestsins ætti alltaf að vera hæsti punktur. Fillis hafði víða áhrif og sérstaklega í Rússlandi því hann var lengi yfirreiðkennari hjá Rússakeisara.


Gustav Steinbrecht (1808 - 1885)

Sá síðasti af mikilvægum reiðmeisturum fram á nítjándu öldina sem hér er kynntur er Gustaf Steinbrecht (1808-1885) Hann skrifaði Gymnasium des Pferdes sem er grundvallarrit samtaka þýskra hestamanna (FN). Nútíma reiðmennskuhefð byggir að stórum hluta á þessari bók ásamt Ecole de Cavalerie eftir Guériniére. Reyndar eru uppi háværar raddir um áherslubreytingar á sumum sviðum því nú hefur komið í ljós að seinni tíma þýðingar eru ekki alltaf réttar. Dæmi um þetta er þegar setning Guériniére: „Hesturinn á að mótast af hendi knapans“ verður: „Hönd knapans á að fylgja munni hestsins“.