Höfuð inn í baug

Fyrst þarf að undirbúa hestinn við hendi eins og greint er frá í kaflanum um að fullsveigja og að stækka baug.

  • Eftir að stigið er á bak setjum við hestinn á hæfilegan baug, 8-10 metra í þvermál.
  • Þegar við höfum fengið sveigju á höfuð og háls með leiðandi taum er nóg að lyfta innri taumnum hæfilega í átt að ytri öxl til að gera hann alveg léttan.
  • Látum innri fótinn liggja örlítið að hestinum um gjörð til að halda léttleika og sveigju. Ef við erum að beygja hestinn til vinstri undirstrikum (styrkjum) við með hæfilegri vinstri ásetu og með þungann á miðjum hesti en færum hann frekar út en inn til að létta á innri hliðinni og þar með á taumnum.
  • Þegar hesturinn léttist á innri taumnum og fellir aðeins höfuð tökum við upp samband með frekar lágum leiðandi ytri taum sem heldur jöfnu taumsambandi og hnakkabeygju.
  • Hesturinn skal beygja um innri fót okkar við gjörð sem einnig viðheldur léttleika á innri taum en ytri fótur okkar aftan við gjörð heldur afturhluta hestsins á ferli baugsins.
  • Saman hvetja þeir svo hestinn fram.

Mikilvægt er að skipta oft um hönd en ekki fyrr en árangri er náð og honum er náð þegar innri taumur er alveg léttur og hesturinn í jafnvægi.

Ef hestur heldur illa jafnvægi eða stefnu er ráðlegt að rétta hann af á beinni línu, finna sameiginlega stefnu og nýtt jafnvægi og beygja hann svo aftur.