Stutt fet (vinnuhraði)

Við sækjum hestinn meira aftan frá. Hvetjum hann hæfilega með fótum, ásetu, hljóði eða jafnvel með písk. Allt eftir því hvað þarf og hæfir hverjum hesti.
Þó aldrei meira en svo að hesturinn haldi hnakkabeygju og léttleika. Ef þetta tapast er rétt að staldra við og gefa hestinum tækifæri til að leiðrétta sig með því að minnka hvatninguna.

Yfirfara hvort hendur eru rétt staðsettar og stöðugar og gera þetta án þess að stöðva nema hesturinn leiðrétti sig ekki.

Þegar við finnum að hesturinn léttist höldum við áfram þar sem frá var horfið. Við þetta fer hesturinn að fella lend, beygja meira í liðum afturfóta, stytta skrefin og reisa sig og ganga með sterku, mjúku baki sem lyftist örlítið.

Ef bakið verður stíft og fetið skeiðlagið lofum við hestinum að fella hálsinn með því að minnka hvatningu og færa hendur örlítið fram.

Þegar við finnum að bakið mýkist og fetið verður jafnt látum við hestinn ekki fella hálsinn meira og hvetjum hann aftur upp í hæfilega reisingu.

Varist að virka bara á höfuð og bara með höndum því þá er hætt við að hesturinn tapi hnakkabeygjunni, bakið stífni og afturfætur byrji að spyrna meira í stað þess að bera.
Heldur skal hesturinn hvattur fram í taumsambandið eða hendi sem virkar á hálssetninguna.

Hálssetning er fyrir aftan miðjan háls og það er aðeins hægt ef hesturinn er alveg léttur og í hnakkabeygju.

Hendur skulu vera rétt staðsettar á litlu svæði yfir herðum þannig að hesturinn geti brugðist rétt við þeim. Hafa skal hendur í sambandi við axlir, axlir í sambandi við bak og bak í sambandi við mjaðmir og þjóhnútur.
Þá höfum við áhrif á allan hestinn.

Þessi æfing ber aðeins árangur ef hesturinn er samspora og heldur jöfnu taumsambandi, jöfnum hægum hraða og hámarks einbeitingu.

Þetta er erfið æfing og er rétt að vísa hestinum niður og lofa honum að teygja sig á slökum taum þegar árangur hefur náðst.

Af hverju á að kenna hestinum stutt fet?

  • Það er söfnun og æfir hestinn í að færa þunga af framhluta yfir á afturhluta. Hesturinn verður þar af leiðandi léttari, reistari og undirbýr sig fyrir að tölta vel.
  • Við lærum og æfumst í að undirbúa hestinn og ríða honum einbeittum og spennulausum í höfuðburði, með sterka yfirlínu, háum að framan en lágum að aftan.
  • Við venjumst því að leiðrétta þessi atriði ef þarf og að stilla hvatninguna í samræmi við taumsamband svo hesturinn fari ekki í vörn.
  • Við lærum að hvetja hestinn fram í taumsambandið og að stjórna reisingunni í samræmi við byggingu hvers hests og vísa honum svo niður og fram án þess að hann hlaupi frá okkur eða flýti sér um of.
  • Þegar hestur er þannig á feti að hann getur flotið beint í tölt án þess að breytast þá er stutta fetið fullkominn undirbúningur fyrir tölt. Viljugur og einbeittur fram, alveg léttur og jafn. Fellir höfuð og framhálsinn en fang reisir hálsinn fyrir aftan miðju. Herðarnar rísa, hesturinn lyftir baki og fellir lend af því hann dregur saman magavöðva. Gefur eftir í afturfótum með því að beygja í liðum, aðallega hæklum. Tekur stutt skref í átt að þyngdarpunkti og er á jöfnum fettakti.
  • Ef við náum góðum tökum á að ríða stutt fet verða flestir hestar samspora og jafnir á tauma.

Það er örlítill stigsmunur á stuttu feti og söfnuðu feti. Safnað fet er hægara, sem næst kyrrstaða. Hesturinn sest meira af því hann beygir hækiliðinn meira en á stuttu feti og lyftir sér þar af leiðandi meira að framan. Að öðru leyti eru gerðar sömu kröfur.

Þegar safnað fet og vilji er ástæða þess að hesturinn er léttur þá er rétt riðið en safnaða fetið verður skilgreint í næsta áfanga.