Samverkandi ábendingar: Forsendur fyrir söfnun

Effet d‘ensamble er franskt nafn á æfingu sem er lýsandi dæmi um samverkandi ábendingar. Ef við berum saman A-B æfingar sem við lærðum í öðrum áfanga og aðskilja hamlandi ábendingar til að stöðva hestinn eða hægja á honum annars vegar. Hvetjandi ábendinga til að setja hestinn af stað eða auka hraða hins vegar þá tengja samverkandi ábendingar það að hamla og hvetja saman og hafa þar með áhrif á það hvort hesturinn léttist og kemur í æskilegan höfuðburð og er forsenda fyrir söfnun. Portúgalskur reiðkennari Nuno Oliveira, notaði þessa litlu æfingu til að fá hestinn til að hlusta og einbeita sér. En þar að auki má nota hana til að ná árangri og fá tilfinningu fyrir samverkandi ábendingum því hún gæti verið samnefnari fyrir þær. Þessi æfing fer fram í kyrrstöðu og er samtal á milli manns og hests, ekki í orðum heldur athöfnum.

Við tökum upp samband við hestinn með taumsambandi sem kemur upp í munnvik annars vegar og sætishvatningu og fótahvatningu aðeins fyrir framan gjörð hins vegar. Síðan hvetjum við hestinn hæfilega fram í taumsambandið, þó án þess að hann stígi fram. Þetta er spurningin sem við leggjum fyrir hestinn. Við bíðum eftir réttu svari sem vonandi kemur með því að hesturinn léttir á taumsambandinu og hneigir aðeins höfuðið. Þá þurfum við að láta hestinn vita að hann hafi svarað rétt og við gerum það með því að létta svolítið aukalega á taum- og hvatningarsambandinu, þó án þess að slíta því alveg.

Þessa æfingu má endurtaka nokkrum sinnum eða þangað til hesturinn er alveg léttur og hægt er að hvetja hann fram án þess að hann ýti á móti taumhaldinu. Góð regla er að hvetja hest ekki til afreka nema hann sé orðinn léttur á taum og ýti ekki á taumhaldið því þá vinna þessar ábendingar hver á móti annarri og það myndast spenna í hestinum.