Stökk, hægra/vinstra

Hestur á stökki í jafnvægi með góðan stökkkraft fram. width=

Stökk er þrítakta gangtegund með svifi. Það er talað um hægra stökk þegar hesturinn byrjar stökkið á vinstri afturfæti. Setur svo niður hægri afturfót og vinstri framfót, svífur og byrjar aftur á vinstri afturfæti. Vinstra stökk hefur öfuga fótaröð við hægra stökk.

Í þessum þriðja áfanga á knapinn að ríða bæði hægra og vinstra stökk frjálst af feti, brokki eða tölti.

Það má einnig ráða hraðanum en æskilegt er að ríða það einnig hægt. Áseta er hálflétt í fyrstu en síðan lóðrétt.

Taumhald má vera langur taumur sem hefur stjórn á hraða, en æskilegt er að hesturinn sé við taum á stökki sem er undir stjórn.

Hesturinn skal stökkva á jöfnum þrítakti með góðu svifi upp og fram. Hest má setja á stökk hvar sem er á vellinum.

Ef við notum hægri ásetu til undirbúnings fyrir hægra stökk skal sjá til þess að slakni vel á innri taum svo innri hliðin sé frjáls. Færa skal ytri fót aftar og að hestinum áður en skipt er, setja sig í hálflétta ásetu í fyrstu meðan knapi og hestur eru að venjast. Sitja svo í lóðréttri ásetu þegar næst meiri leikni.

Fylgja skal hestinum á stökkinu í jafnvægi og með stökkhreyfingunni. Ef við undirbúum fyrir vinstra stökk beitum við gagnstæðum ábendingum.

Hægra og vinstra stökk hjálpar til við að gera hestinn jafnsterkan og bætir jafnvægi og allar aðrar gangtegundir.

Hægt stökk er róandi og slakandi fyrir hestinn en eykur teygju og snerpu ef það er riðið hraðar. Það bætir jafnvægi knapans og örvar hann til að ríða fram og nota hvatningar.

Hér að neðan er myndband sem sýnir hvernig nota má stígandi ásetu við stökkskiptingar.

Stígandi áseta - Stökkskiptingar