Æfing við hendi – Hliðarhvatning, framfótasnúningur

Undirbúningur fyrir hliðarhvatningu þar sem hesturinn víkur frá áreiti sem kemur frá hlið. Við framfótasnúning á hann að færa afturhlutann í hálfhring um framhlutann sem er nær því kyrr. Þegar við kennum hesti hliðarhvatningu er rétt að staðsetja sig við bóg, snúa í gagnstæða átt við hestinn og halda taumnum í hendinni sem er nær hestinum. Þegar hesturinn er kominn í hnakkabeygju og sveigir hálsinn hæfilega að okkur strjúkum við písk í fjærhönd yfir lend og niður á læri til að vara hestinn við og hvetjum hann svo þar með písknum þangað til hann víkur. Um leið og hesturinn víkur tökum við pískinn frá og endurtökum svo leikinn með því að láta pískinn snerta síðuna sem næst þeim stað þar sem við hvetjum með hliðarhvetjandi fæti sitjandi í hnakknum. Taumar hamla því að hesturinn gangi fram og staðsetning okkar við bóg hamla því að færi sig inn eða gangi afturábak. Þá er einungis ein leið opin.

Mikilvægt er að gera hlé eftir hvert lítið skref, hesturinn tekur því sem umbun. Ef hann stöðvar ekki en heldur áfram að færa afturhlutann til hliðar er árangursríkt að leggja pískinn ofan á lendina. Það virkar róandi og hamlandi. Þessi æfing er gott dæmi um skipulag þar sem það fer ekki framhjá hestinum þegar hann bregst rétt við. Er stöðvaður fær umbun með stroku, mola, hlýjum orðum róa sig og bíða eftir næstu hvatningu. Hestur í uppnámi lærir ekki.

Það er því mikilvægt í öllum æfingum að láta hestinn vita þegar hann bregst rétt og vel við þó við höfum ekki tök á að stöðva hann gefa honum mola eða stroku. Í sumum tilfellum höfum við einungis tök á að létta af ábendingum í öðrum tilfellum þar sem við viljum umbuna greinilegar lofum við hestinum að fá allan tauminn teygja á yfirlínu og lengja skrefin.