Gangskipting: Fet – tölt

Við viljum hafa þá tilfinningu á stutta fetinu að hesturinn sé sem líkastur því sem hann verður á töltinu. Einbeitingin sé sú sama, einnig höfuðburður og hringaður makki. Léttleiki í fyrirrúmi í jöfnu taumsambandi, bakinu lyft og lend felld. Þegar við aukum hraðann með hvatningu þá líður hesturinn inn í töltið. Ef þurfa þykir skal leiðrétta hestinn alla leið inn í töltið eins og gert var á fetinu. Töltið skal vera jöfnum fjórtakti með hliðstæðri fótaröðun – vinstri aftur, vinstri fram, hægri aftur, hægri fram. Við lærum ekki að ríða tölt, við lærum að ríða. Að ríða tölt er tilfinning fyrir léttleika, baki, takti og jafnvægi.

Tölt er safnandi æfing þar sem hesturinn notar magavöðvana til að fella lend, hálsinn til að lyfta aðeins baki svo það verði mjúkt og sterkt og létti hestinum að lækka sig að aftan og hækka sem því nemur að framan. Hesturinn færir þá þunga af framfótum á afturfætur. Það gerir hann með því að kreppa liði í afturfótum og bera með þeim meira og lengur en spyrna minna. Hesturinn staðsetur afturfætur nær þyngdarpunkti án þess að taka of löng skref, langa skrefið er háð hraða. Ef hann tekur of löng skref þarf hann að færa fótinn jafn langt aftur og hann fór fram og úr verður vaggandi skeiðhreyfing.