Tvöfaldur taumur

Það má nota flestar gerðir af taum ef hann er nógu langur og það lipur að auðvelt sé að umbuna hestinum fyrir eftirgjöf. Ég ætla hér að lýsa taumi sem uppfyllir þær kröfur.

Taumurinn er seglskútulína sem búið er að teygja þannig að hann vefst síður. Hann er þungur og endist vel. Hann er u.þ.b. 12 metra langur þannig að við getum verið í allt að 6m fjarlægð frá hestinum þegar taumurinn er tvöfaldur og tengdur í sitt hvorn hringinn á mélunum. Þá er hægt er að láta unga og óvana hesta hlaupa óþvingað í aðhaldi eða á hring sem er 12 metrar í þvermál. Hann er með tveimur liprum láshringjum sem hægt er festa við hnakkkúluhringina og þarf þá engan annan útbúnað sem er hagkvæmt ef þjálfarinn vill fara á bak að aflokinni taumvinnunni. Það er auðvelt að sveifla taumnum yfir hest til að þjálfarinn geti fært sig frá einni hlið á aðra með liprum hætti. Einnig er auðvelt að hvetja með taumnum með því að láta hann titra eða setja öldur á hann sem hnippa í hestinn. Hestar eru mjög fljótir að læra og venjast því að víkja fram eða út á hlið eftir því hvar taumurinn kemur að þeim. Yfirleitt þarf ekki að nota písk með taumnum. Flestir hestar læra strax að svara taumnum og verða næmir á að svara honum sem hvatningu.

Það eru til sér útbúnar gjarðir til að vinna með tvöfaldan taum. Ég mæli með gjörð sem er með hátt settum hringjum. Þannig að taumurinn leiki í gegn um hringi sem eru í svipaðri hæð yfir herðum og hendur okkar þegar við sitjum í hnakknum. Með tvöföldum taum vinnum við að taumsambandi, höfuðburði og yfirlínu. Það má þjálfa flestar gangtegundir, gangskiptingar og mjög margar æfingar. Fyrir utan að vinna á afmörkuðum hring eða svæði má þjálfa hest sem er orðin vanur taumunum á opnu svæði með góðum árangri

Vinna með tvöfaldan taum

Þegar við setjum tvöfaldan taum í fyrsta skipti við hest er rétt að hafa aðhald eða afmarkaðan hring sem er ekki stærri en það að hægt sé að láta hestinn vera frjálsan í fyrstu svo að ekki komi til átaka á meðan hesturinn er að venjast taumnum.

Við getum tengt tauminn á ýmsa vegu eftir því hvað við viljum fá fram eða hvað við erum að æfa.

Bein tenging

Bein tenging

Bein tenging

Venjulegast er að tengja beint í mélin í fyrstu á meðan við erum að venja hestinn við tauminn og taumhaldið. Við þessa vinnu höfum við góða sýn á hestinn. Ef við sjáum að hann lyftir höfðinu meira en hann hneigir það þá tengjum við tauminn óbeint.