Léttleiki, taumléttur, taumsamband og taumhald

Mig langar að nota orðið „léttleiki“ í stað „taumléttur“. Léttleika eða að hestur sé taumléttur má ekki misskilja svo að hesturinn komi ekki við taum því hestur sem kemur ekki við taum þorir það kannski ekki, treystir ekki hendinni. Léttleiki er þegar hestur þorir að leita eftir taumsambandi af því hann hefur lært að ef hann gefur eftir, víkur frá taumhaldi, fær hann umbun fyrir. Hann veit að því fyrr sem hann gerir það því stöðugri verður léttleikinn. Meðan léttleikinn varir er eins og taumunum sé dýft í vatn.

Ef einhvern tíma er mikilvægt að setja sig í spor hestsins eða að hugsa eins og hestur þá er það þegar tekið er upp taumsamband. Með taumhaldi legg ég áherslu á að eftir að hafa fengið sátt um hraða og látið léttast á taumunum aðskilið með leiðandi taumsambandi. Þá að halda við hestinn eins og þarf til að hann gefi eftir, ekki meira og ekki minna. Við gefum honum þann tíma sem hann þarf til að finna út að ef hann víkur frá taumhaldinu slakar á spennu í kjálkum og hnakka og hann fær umbun fyrir í formi þess að það léttist á taumhaldinu. Ef við togum í tauminn er hætt á að við notum meiri kraft en hesturinn og hann leggst í vörn. Einnig að við finnum ekki eins vel ef hesturinn vill slaka á og missum þá af augnablikinu nákvæma þegar gefa skal eftir. Það eru heimar á milli þess að halda eða toga. Þess vegna er stöðug næm hönd, sem er í sambandi við axlir þínar og efri hluta líkamans gott ráð. Ekki færa höndina að hestinum heldur nota neðri hluta baks, mjaðmir, sæti og fætur til að láta hestinn koma að hendinni og ganga og hugsa fram. Því virkari sem hesturinn er í afturhluta, fellir lend og beygir liði í afturfótum, því léttari verður hann á taum og framhluta. Þó eru takmörk fyrir því hversu mikið má hvetja hest fram og markast af því hve vel hann skilur taumhaldið og hversu vel hann svarar því.

Ég legg áherslu á að hafa kyrra hönd, hönd sem er ekki á hreyfingu. Það er mjög mikilvægt því ef höndin er á of mikilli hreyfingu, hristist, kippir, togar eða sagar, þá fær hesturinn aldrei það næði sem hann þarf til að gefa rétt eftir og knapinn þá heldur aldrei tækifæri til að umbuna honum með því að slaka á fingrum eða færa höndina fram. Einnig hefur hesturinn þá líka möguleika á að umbuna sér sjálfur ef höndin er nógu kyrr. Ef ekki slaknar á taumnum þegar hesturinn gefur eftir, kannski vegna þess að við erum svo upptekin af því að toga, er það eins og hesturinn fái rangt fyrir rétt svar á prófi. Eins er ef þú umbunar hestinum of fljótt, áður en hann gefur eftir. Þá er það eins og að fá rétt fyrir rangt svar. Í báðum tilfellum verður misskilningur og hesturinn er skilinn eftir í uppnámi.

Við látum hestinn ekki gefa eftir heldur er það hesturinn sem ákveður það með sjálfum sér en við umbunum honum fyrir það og þá gengur dæmið upp. Hesturinn sækist eftir því sem er þægilegt en víkur frá því sem er óþægilegt. Þegar þetta samspil er rétt myndast traust milli manns og hests vegna þess að hesturinn skilur og þorir að hjala sig að hendi þinni með ofurnæmu taumsambandi.

Það er léttleiki.