Vinna við hendi

Vinna við hendi er það kallað þegar við stöndum jafnfætis við hestinn og höfum áhrif á hann með staðsetningu og framkomu.

Þessi vinnuaðferð er notuð til að venja unga hesta við taumsamband, leiðrétta hesta með slæman höfuðburð og til að fá léttleika.
Einnig til að kenna hestum æfingar, jafna misstyrk og undirbúa söfnun.

Ábendingar sem notaðar eru til að hafa áhrif á hestinn eru fyrst og fremst líkamstjáning, að gera sig breiðan og hvetjandi eða lítinn, meinlausan og róandi.

 


Við notum róandi eða hvetjandi hljóð, písk sem snertir hestinn hvetjandi fram á við eða út á hlið eða hestinum er strokið með písknum til að róa.

Einnig notum við taum sem er ýmist einfaldur eða tvöfaldur og fer lengd hans eftir því hvað við viljum hafa mikla nálægð við hestinn.