Höfuð út úr baug

Þegar höfuð og háls eru sveigð út úr baugnum eru notaðar sömu ábendingar nema nú er hesturinn sveigður út. Auðveldast til árangurs er að færa hest, sem sveigður er inn í baug, yfir á gagnstæðan baug en halda sveigjunni áfram upp á sömu hlið. Þá sveigir hesturinn út úr baugnum.

  • Til að halda sveigjunni færum við báðar hendur frekar (aðeins) út miðað við sveigjuna á hálsi.
  • Ytri taumur (Munið að hugtökin ytri og innri eru alltaf miðuð við sveigju hestsins en ekki upp á hvora hönd riðið er!) verður leiðandi og heldur framhluta hestsins á ferli baugsins.
  • Ytri fótur knapans er hamlandi fyrir aftan gjörð og varnar því að hesturinn minnki bauginn.
  • Innri taumur færist líka út og að herðum eða hálssetningu og verður örlítið hærri en ytri taumur léttur og leikandi til að halda sveigjunni og léttleikanum.
  • Innri fótur knapans liggur við gjörð og heldur sveigjunni og léttleikanum á innri taum.

Kontrastilling eða að stilla hest út þjálfar hestinn að halda rétt á brjóstkassa og bera þyngdina jafnt á framfótum, gerir höfuð og háls sveigjanlegt og óháð.